Fréttir

Tim Finchem ætlar að hætta
Þriðjudagur 29. mars 2016 kl. 15:18

Tim Finchem ætlar að hætta

Framkvæmdastjóri PGA mótaraðarinnar, Tim Finchem, hefur gefið það út að hann ætli að hætta. Finchem er nýbúinn að skrifa undir eins árs framlengingu á samningi sínum við mótaröðina en hann stefnir þrátt fyrir það á að hætta í lok ársins.

„Jafnvel þótt samningurinn fari vel inn í 2017 þá stefni ég ekki á að vera það lengi í starfi“ sagði Finchem sem verður 69 ára gamall í næsta mánuði. „Það hlaut að koma að þessu. Nú skiptir öllu að starfslokin verði vel skipulögð.“

Finchem hefur verið framkvæmdastjóri mótaraðarinnar síðan 1994 en það ár var Greg Norman nokkur efstur á heimslistanum. Það ár hóf Tiger Woods einnig háskólagöngu sína svo Finchem hefur verið við stjórnvöldin í gegnum miklar breytingar.

Jay Monahan mun taka við starfinu af Finchem en Monahan hefur verið hægri hönd hans í rúm tvö ár. Finchem hefur fulla trú á honum og segir hann hafa gert meirihlutann sem felst í starfinu uppá síðkastið. „Jay er tilbúinn, þetta mun allt fara vel.“