Fréttir

Tiger hætti keppni á Masters
Tiger vann sinn fimmta græna jakka nokkuð óvænt árið 2019.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
sunnudaginn 9. apríl 2023 kl. 11:43

Tiger hætti keppni á Masters

Tiger Woods hefur hætt leik á Masters. Hann var sex yfir pari eftir sjö holur á þriðja hring þegar leik var hætt  í gær, laugardag, vegna rigningar. Ástæðurnar eru meiðsli kappans sem hafa verið að hrjá hann eftir bílslys sem hann lenti í. 

Tiger var greinilega nokkuð frá því að geta beitt sér að fullu og sjá mátti að hann haltraði lítillega á vellinum en enn meira við lok annars hring.

Joe LaCava, kylfusveinn Tigers sagði fyrr í vikunni við New York Post að ef þetta hefði ekki verið Masters mótið - hefði hann aldrei mætt til leiks. 

Tiger rétt komst í gegnum niðurskurðinn á þremur yfir pari. Félagar hans, Rory McIlroy og Justin Thomas komust ekki í gegn.

Þegar leik var hætt í gær hafði síðasti ráshópur leikið 9 holur og þarf því að leika 27 holur í dag, sunnudag. Bandaríkjamaðurinn Bruce Koepka er á 13 höggum undir pari og er með fjögurra högga forskot á Spánverjann Jon Rahm sem er á -9.