Fréttir

Þriðji sigur Wesley Bryan á Web.com - öðlast þátttökurétt á PGA mótaröðinni
Wesley Bryan
Þriðjudagur 9. ágúst 2016 kl. 11:05

Þriðji sigur Wesley Bryan á Web.com - öðlast þátttökurétt á PGA mótaröðinni

Fyrir fimm mánuðum síðan var Wesley Bryan einungis þekktur sem einn bræðra í Bryan Bros en nú hefur hann öðlast fullan þátttökurétt á PGA mótaröðinni.

Wesley vann Opna Digital Ally mótið á Web.com mótaröðinni eftir þriggja manna bráðabana og er þetta þriðji titill hans á mótaröðinni á þessu tímabili.

Samkvæmt reglu á Web.com mótaröðinni mun leikmaður sem vinnur þrisvar sinnum á sama tímabili sjálfkrafa öðlast þátttökurétt á PGA mótaröðinni. Wesley getur hafið leik á PGA mótaröðinni strax í næstu viku þegar Wyndham mótið fer fram í Greensboro í Norður-Karólínu.

Á sama tíma í fyrra hafði Wesley ekki spilað mót á Web.com mótaröðinni en líf hans hefur mikið breyst eftir frábæra spilamennsku undanfarið ár. Bryan Bros kalla þeir Wesley og eldri bróðir hans George sig en þeir hafa verið í sviðsljósinu undanfarin ár fyrir golfbrelluhögg sín á YouTube. Hér má nálgast YouTube síðuna þar sem þeir sýna mögnuð tilþrif.

Wesley lauk leik jafn í 9. sæti á lokastigi Web.com Q-school til að trygga kortið sitt fyrir þetta ár. Á aðeins þriðja mótinu sínu á Web.com mótaröðinni vann hann svo Chitimacha Loyisiana Classic mótið með bróður sinn George á pokanum. Í apríl, mánuði síðar, vann Wesley aftur á El Bosque Mexico Championship mótinu, í þetta sinn með Chad Coleman, félaga sinn frá Callaway á pokanum. Þriðji sigur Wesley kom núna á sunnudaginn þar sem hann leiddi með einu höggi fyrir lokahringinn og spilaði á 4 höggum undir pari eða á 67 höggum til að komast 20 undir par samtals á Nicklaus golfvellinum. Það var nóg til að komast í þriggja manna bráðabana en Wesley fékk fugl á annari holu í bráðabana og þar með landa sínum þriðja titli á mótaröðinni.

Bryan er ellefti leikmaður Web.com mótaraðarinnar til að tryggja sér þátttökurétt á PGA mótaröðinni í gegnum þriggja-sigra regluna sem var samþykkt árið 1997. Carlos Ortiz var síðasti leikmaður til að nýta sér regluna árið 2014.