Fréttir

Örn Ævar á sama stalli og McIlroy í klúbbhúsinu í St. Andrews
Mánudagur 31. október 2011 kl. 15:10

Örn Ævar á sama stalli og McIlroy í klúbbhúsinu í St. Andrews

Margir íslenskir golfáhugamenn muna vel eftir ótrúlegu afreki sem Suðurnesjamaðurinn Örn Ævar Hjartarson náði árið 1998 þegar hann lék Nýja völlinn í St. Andrews á 60 höggum eða ellefu höggum undir pari. Það var að sjálfsögðu vallarmet á vellinum og hefur enginn kylfingur leikið völlinn á lægri höggfjölda.

Búið er að gera breytingar á vellinum síðan Örn Ævar lék þennan draumahring í St. Andrews Links Trophy áhugamannamótinu og því gildir vallarmet hans ekki í dag. Þeir sem hafa komið inn í klúbbhúsið í St. Andrews geta þó séð stóran skjöld fyrir ofan stigaganginn í miðju klúbbhúsinu og þar er nafn Íslendingsins ritað ásamt öllum öðrum núverandi og fyrrum vallarmetum á Gamla vellinum, Nýja vellinum og Jubilee vellinum. Eins og sjá má á mynd sem fylgir þessari frétt hér að neðan þá er nafn Örn Ævars skráð fyrir neðan nafn Rory McIlroy sem á vallarmetið á Gamla vellinum, 63 högg.

Bætti sig um 19 högg

Örn Ævar rifjaði upp hringinn eftirminnilega í viðtali við Kylfing.is fyrir þremur árum: „Þetta var ótrúlegt. Þessi hringur var annar hringurinn minn á St. Andrews Links Trophy mótinu. Ég hafði spilað fyrsta hringinn um morguninn á gamla vellinum og gekk alveg ömurlega. Spilaði á 79 höggum þannig að eftir hringinn var bara hugsunin að klára mótið með reisn því ég taldi möguleikar mínir á því að komast í gegnum niðurskurðinn frekar litlir því aðstæður voru mjög góðar og margir að spila mjög vel. Ég man eftir þessu eins og það hafi gerst í gær. Það var brjálað að gera í klúbbhúsinu og þjónustan var mjög hæg. Ég fékk matinn minn mjög seint og varð að skófla honum í mig og bókstaflega hlaupa á teiginn. Þar hitti ég kylfusveininn minn, Dod Stewart heitinn, en hann lést í bílslysi fyrir nokkrum árum síðan. Hann var virkilega farinn að halda að ég ætlaði ekki að mæta í hringinn. Við settum okkur það markmið að spila allavega betur en hringinn á undan og ég fór út með það hugarfar að reyna að komast sem næst parinu en ég var sjö yfir þegar þarna var komið sögu.“

Svo byrjaði ballið

Hringurinn byrjaði mjög vel og fékk ég fugl á fyrstu þrjár holurnar og svo annan fugl á 8. holuna sem er par 5 hola. Fyrri níu á 32 höggum, fjóra undir. Svo byrjaði ballið. Ég fékk fugla á næstu tvær holur, örn á 12. og svo fugla á 13. og 14. þannig að ég var allt í einu orðinn sex undir pari á seinni níu eftir fimm holur og tíu undir á hringnum. Síðan fylgdi par á 15. holuna og svo fugl á þeirri 16. Ég náði svo að bjarga parinu á þeirri 17. og átti tvo mjög góð högg á þeirri 18. svona um fimm metra frá holunni. Ég og kylfusveinninn erum að rölta að flötinni og það eina sem ég hugsa um er að fá einn fugl í viðbót. Þá segir kylfusveinninn svolítið við mig sem kom mér algjörlega á jörðina og rúmlega það. "Not a bad round mate, two putts for a sixty." Þá hellist það yfir mig að ég er að fara að pútta fimm metra pútt fyrir 59 höggum!!! Púttið var mjög þægilegt, frekar beint þannig að þetta var bara spurning um að byrja hana á stefnu og drífa. En það er mjög erfitt þegar maður skelfur eins og hrísla í stormi og nær ekki andanum fyrir stressi. Ég dreif ekki á holuna en setti niður parið og 60 högg staðreynd. Alveg ótrúlegur hringur sem ég á aldrei eftir að gleyma.“

Metið verður ekki slegið

Metið verður ekki slegið því það er búið að breyta vellinum síðan þetta gerðist og ég frétti það um daginn að það væri meira að segja búið að taka niður skorkortið mitt sem hékk alltaf í búningsklefanum í skálanum. Frekar svekkjandi. Ég hef ekki spilað á vellinum síðan þetta gerðist en ég hef komið til St.Andrews tvisvar og spilað þarna í kring. En þessir níu fuglar, örn og átta pör munu lifa alla tíð með mér og vonandi þeim sem eru í kringum mig og þekkja til mín,“ sagði Örn Ævar við Kylfing.is fyrir þremur árum.


Öll vallarmetin á Gamla vellinum, Nýja vellinum, og Jumilee vellinum hanga í stigaganginum í klúbbhúsinu í St. Andrews. Margir kylfingar trúa því varla að það sé Íslendingur sem hefur leikið á besta skori allra tíma í St. Andrews.