Fréttir

Mesti munur í sögu meistaramóta?
Klúbbmeistari golfklúbbsins Hamars á Dalvík, Hafsteinn Þór Guðmundsson.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 12. júlí 2024 kl. 09:35

Mesti munur í sögu meistaramóta?

„Ég hef ekki heyrt af svona miklum mun í meistaramóti,“ segir Friðrik Gunnarsson, PGA golfkennari golfklúbbsins Hamars á Dalvík en hinn ungi og bráðefnilegi kylfingur, Hafsteinn Thor Guðmundsson, gerði sér lítið fyrir og vann meistaraflokkinn með 46 högga mun!

Friðrik vill trúa að munurinn hefði ekki orðið svona mikill ef hann hefði sjálfur keppt. 

„Hafsteinn var með 2,0 í forgjöf en degi áður en meistaramótið hófst var unglingameistaramótið okkar og þá spilaði hann á 65 höggum og lækkaði væntanlega eitthvað þá. Þó svo að ég hefði tekið þátt þá hefði ég ekki unnið Hafstein, ég held að það sé nokkuð ljóst. Ég er með 5,9 í forgjöf í dag en hafði lítið spilað þar til í sumar. Ég spilaði lítið á meðan ég var að fjölga mannkyninu og svo var ég upptekinn við að kenna en ég kláraði PGA-námið árið 2015 og á einhvern pínu þátt í hve Hafsteinn og aðrir ungir golfarar á Dalvík eru góðir, ég hef kennt þessum strákum en mest er þetta þeirra eigin metnaði að þakka held ég, þeir eru duglegir að æfa sig utan venjubundins æfingatíma. Hafsteinn spilaði vel í mótinu og ég man ekki eftir að hafa séð svo mikinn mun á milli sigurvegara og þess sem endaði í öðru sæti í meistaramóti, venjulega hefur þetta ráðist á lokadegi. Það hefði verið gott að hafa hann í sveitakeppninni en þá verður hann að spila í unglingamótaröð en ég reyni að fylla skarðið hans.“

Golfvöllur Dalvíkinga heitir Arnarholtsvöllur og er níu holur. Hann eins og aðrir vellir fyrir norðan áttu bágt á vormánuðum enda var snjór fram til loka maímánuðar og ekki nóg með það, heldur snjóaði talsvert um miðjan júní en völlurinn er allur að koma til núna og það er gott hljóð í meðlimum Hamars fyrir sumrinu sem er rétt að byrja núna.

„Það eru um 110-120 meðlimir í golfklúbbnum en það búa rúmlega 2000 manns á Dalvík. Mætingin í meistaramótið var svipuð og þessi þrjú ár sem ég hef verið í klúbbnum, unga kynslóðin er að koma sterk upp, Maron Björgvinsson sem lenti í þriðja sæti er sextán ára eins og Hafsteinn og sigurvegarinn í 1. flokki, Barri Björgvinsson, er bara tólf ára, ég myndi því segja að framtíðin sé björt í golfinu á Dalvík. Sjálfur er ég Akureyringur og keyri á milli, ég er um 35 mínútur að keyra út á golfvöll sem er allur að lifna við núna eftir erfiðan vetur, það var klaki meira og minna í allan vetur og það er það versta fyrir golfvöll, þá nær grasið ekki að anda. Við vorum ekki heppin með veðrið í meistaramótinu, það var töluverður vindur og rigndi fyrsta daginn svo núna verður þetta bara upp á við hjá okkur. Það er farið að fjölga talsvert gestum á golfvöllinn okkar og ég held að það sem eftir lifir sumars verði gott veðurfarslega séð,“ sagði Friðrik að lokum.

Dalvíkingar að æfa púttin fyrir meistaramótið.