Fréttir

Lee Elder er látinn
Lee Elder var frábær kylfingur og mikill brautryðjandi.
Nökkvi Gunnarsson
Nökkvi Gunnarsson skrifar
þriðjudaginn 30. nóvember 2021 kl. 07:26

Lee Elder er látinn

Fjórfaldur sigurvegari á PGA mótaröðinni Lee Elder er látinn 87 ára að aldri. Elder sem lék í 448 mótum á PGA mótaraöðinni á ferlinum var einnig þekktur fyrir að verða árið 1975 fyrsti svarti maðurinn til þess að leika á Masters mótinu.

Í apríl síðastliðnum sló Lee Elder fyrstu högg Masters mótsins ásamt þeim Gary Player og Jack Nicklaus.

Elder bætti við átta sigrum á PGA mótaröð eldri kyflinga eftir að hann varð 50 ára og var sannkallaður frumkvöðull í golfíþróttinni.

Hann var fæddur árið 1934 og var yngstur 10 systkina. Hann missti föður sinn í seinni heimsstyrjöldinni þegar hann var níu ára gamall og móður sína aðeins þremur mánuðum síðar. Hann ólst eftir það upp hjá frænku sinni til 16 ára aldurs og þakkaði henni fyrir að hafa gert sig að manni.

Þegar hann var 16 ára gamall fékk hann vinnu sem kylfusveinn og þurfti að standa á eigin fótum. Stuttu síðar lék hann sinn fyrsta 18 holu hring. Hann varð fljótt góður kylfingur og vann fyrir sér með því að veðja við aðra kylfinga á Dallas svæðinu. Einn þeirra kylfinga var hnefaleikameistarinn Joe Louis. Louis kynnti Elder fyrir golfkennaranum Ted Rhodes sem hjálpaði Elder við að fínpússa leik sinn. 

Eftir að hafa lokið herskyldu árið 1961 hóf hann að leika á UGA mótaröðinni sem var fyrir svarta kylfinga en svartir kylfingar máttu ekki leika á PGA mótaröðinni á þeim tíma. Á einum tíma náði hann að sigra á 18 af 22 mótum sem hann lék í. 

Árið 1967 náði hann svo loks að komast inn á PGA mótaröðina í gegnum úrtökumót eftir að mótaröðin hafði heimilað lituðum mönnum að taka þátt.