Kristján Þór og Guðrún Brá sigruðu í Korpupbikarnum
Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK, og Kristján Þór Einarsson, GM, sigruðu í Korpubikarnum sem fram fór í samvinnu við Icelandair á Korpúlfsstaðavelli dagana 19.-21. ágúst 2022. Þau léku bæði frábært golf og líklega er þetta besti árangur sem sést hefur á stigamóti hér á landi. Leiknar voru 54 holur á þremur dögum en mótið var jafnframt lokamótið á stigamótaröð GSÍ.
Guðrún Brá lék snilldar golf og endaði á 12 höggum undir pari vallar. Hún sigraði með 12 högga mun. Hún fékk þrettán fugla og tvo erni á 54 holunum sem er frábært. Perla Sól Sigurbrandsdóttir, GR, Íslandsmeistari í golfi 2022, varð önnur á pari vallar og Berglind Björnsdóttir, GR, varð þriðja á 2 höggum yfir pari.
Kristján Þór, sem er Íslandsmeistari í golfi 2022, lék á 18 höggum undir pari vallar sem er samkvæmt bestu heimildum besti árangur sem íslenskur kylfingur hefur náð á 54 holum. Hann fékk tuttugu fugla á 54 holum og einn örn. Allir hringirnir voru undir 70 höggum sem er afar sjaldgæft.
Kristján var með fjögurra högga forskot fyrir lokahringinn en Axel Bóasson, GK, veitti honum harða keppni og náði að jafna hann á 10. holu og komast í forystu á 12. braut en hann var átta undir pari eftir 12 holur. Kristján fékk tvo fugla á síðustu fjórum en Axel lék þær á pari. Munurinn því tvö högg í lokin. Næstir voru Hlynur Bergsson, Hjalti Hlíðberg Jónasson, sem eru báðir úr GKG, og Böðvar Bragi Pálsson, GR léku allir á 8 höggum undir pari vallar. Alls léku 16 leikmenn í mótinu í karlaflokki undir pari vallar – sem er frábær árangur í golfmóti á Íslandi.
Með sigrinum tryggði Kristján Þór sér jafnfram stigameistaratitilinn 2022.