Fréttir

Good Good Golf
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
þriðjudaginn 26. apríl 2022 kl. 10:56

Good Good Golf

Frábær framleiðsla, skemmtilegt efni og endalaust golf

Flestir kylfingar eiga það sameiginlegt að hafa fallið kylliflatir fyrir golfíþróttinni eftir að hafa komist upp á lagið með að spila sjálfir.

Það er fátt skemmtilegra en að hreinsa hugann og gleyma sér á golfvellinum og komast í hugarástand langt frá amstri dagsins. En fyrir okkur mörg er ekki nóg að spila golf, við þurfum einnig að fylgjast með öðrum kylfingum. Við fylgjumst með íslenskum atvinnumönnum og öðrum af þeim bestu á stóru mótaröðunum. Við fylgjumst með efnilegum kylfingum hér heima og horfum á kennslumyndbönd og alls kyns efni sem er í boði víðsvegar á netinu.

YouTube er samfélagsmiðill sem flestir ættu að þekkja en þar er að finna ógrynni af alls kyns myndefni frá hinum og þessum aðilum. Efni á YouTube er mjög misjafnt að gæðum eins og gefur að skilja en þar er hægt að finna ansi fagmannlega unnið efni þar sem mikið er lagt í framleiðsluna.

Good Good Golf var stofnað af þeim félögum, Garrett Clark, Matt Scharff, Stephen Castaneda, Micah Morris, og Tom Broders. Upphaf Good Good Golf má rekja til þess að vinahópur í Kansas fór að búa til golftengt efni daglega sem hópurinn hlóð upp á YouTube.

Good Good Golf framleiðir stutta þætti á YouTube þar sem þeir setja upp alls kyns keppnir og sprell og gera tilraun til að leysa hinar ýmsu þrautir á golfvellinum. Þeir hafa fengið til liðs við sig hina og þessa þekkta einstaklinga úr golfheiminum á borð við Kyle Berkshire, högglengsta kylfing veraldar og atvinnukylfinginn Bryson DeChambeau svo einhverjir séu nefndir.

Good Good Golf verkefnið hefur farið á slíkt flug vestan hafs að myndskeið þeirra félaga hafa fengið fleiri milljónir spilana á YouTube. Þá hafa þeir hannað og framleitt sína eigin fatalínu og það virðist vera sem vinsældir þeirra muni einungis aukast í náinni framtíð.

Hér gefur að líta stórskemmtilegt og hreint ótrúlegt myndskeið af ævintýrum þeirra félaga. Þeir sem hafa ekki þolinmæði til að horfa á allan þáttinn geta farið beint á 07:42.