Garcia leikur fótbolta með heimaliði sínu í spænsku þriðju deildinni
Spænski kylfingurinn Sergio Garcia ákvað að taka sér frí frá golfiðkun í tvo mánuði eftir PGA-meistaramótið og nýtir tímann til að uppfylla æskudrauma. Honum hefur alltaf dreymt um að leika með heimaliði sínu í spænska boltanum, Borriol liðinu sem leikur í spænsku þriðju deildinni.
Garcia, sem eitt sinn var annar á heimslistanum í golfi, lék síðustu átta mínúturnar með liðinu í tapi gegn Ribarroja um helgina, 1-0. Hann lék á vinstri kantinum og stóð sig nokkuð vel að sögn vitna.
„Sergio virtist nokkuð stirður en hefur hæfileika. Hann átti meðal annars að fá víti í leiknum en fékk ekki,“ sagði áhorfandi í samtali við breska götublaðið Sun. Garcia ætti ekki að eiga í erfiðleikum með að fá fleiri tækifæri með liðinu enda er hann forseti liðsins.
Golfferilinn hefur verið á hraðri niðurleið á undanförnum árum og hefur hann ekki unnið mót í tvö ár og er dottinn útaf topp-50 á heimslistanum.
Myndir/golfsupport og The Sun: Sergio Garcia er í hléi frá golfi.