Dalbúi kemur á óvart
Þrítugur níu holu golfvöllur við Laugarvatn hefur elst vel
Golfvöllurinn í Miðdal hjá Golfklúbbnum Dalbúa, rétt við Laugarvatn er einn af mörgum „sveita“-völlum á Íslandi sem kemur skemmtilega á óvart. Völlurinn er 9 holur, fjölbreyttur og skemmtilegur og vel hirtur. Dalbúi fagnaði þrítugsafmæli árið 2019.
Fréttamaður kylfings.is hefur leikið völlinn tvisvar sumarið 2020 og gefur Dalbúa mjög góða einkunn. Völlurinn er snyrtilegur og flatirnar góðar að undanskildum smá skemmdum á 2-3 flötum. Brautirnar eru nokkuð mjúkar og því er boltarúll ekki mikið. Erfiðleikastuðull vallarins er lágur og í raun of lágur að okkar mati þannig að það eru litlar líkur á því að maður lækki í forgjöf á Dalbúa. Hann er þó ekki erfiður en leynir á sér.
Flottar par 5 brautir
Par 5 brautirnar, 3. og 6. hola eru nokkuð langar og frekar erfiðar en samt flottustu golfholurnar á vellinum en það eru fleiri góðar brautir, 2. holan er stutt en flott, teigurinn stendur hátt og brautin er innrömmuð af þykkum karga vinstra megin og háum trjáum hægra megin. Níunda holan er líka skemmtileg og góð lokabraut með fallegri tjörn og lítilli trébrú rétt hjá. Fimmta og sjöunda flöt liggja nær samhliða og þar hefði sniðugt að láta þær renna saman í eina stóra flöt en það er mjög sjaldgæft. Upp í hugann kemur flöt 2 og 5 á Urriðavelli.
Þriðja brautin, par 5 er með skemmtilega hindrun þannig að það þarf að fara varlega í innáhögginu.
Mikil aðsókn síðustu sumur
„Það hefur verið mjög aðsókn síðustu tvö sumur og kylfingar hafa verið ánægðir með völlinn. Þá hefur rekstur klúbbsins gengið vel,“ segir Bryndís Scheving, formaður Dalbúa en hún stendur vaktina á sumrin í vinalegu klúbbhúsi. Hún er Garðbæingur er gistir í Miðdal á sumrin. Rekstur klúbbins hefur gengið ágætlega og verið í plús undanfarin ár enda er hagkvæmni í fyrirrúmi hjá stjórninni. Einn vallarstarfsmaður sinnir hirðingu vallarins og stendur sig vel því völlurinn er snyrtilegur.
„Kvenna“-teigar
Allir teigar eru í umsjón kvenna í klúbbnum og tréskilti eru við hvern teig með nafni konu sem sér um viðkomandi teig. „Já, konurnar tóku teigana að sér og setja blómapott við þá og passa upp á snyrtimennsku, tína upp tí og svoleiðis,“ segir formaðurinn þegar hún er spurð út í þetta skemmtilega atriði. Við teigana er líka bekkir þar sem hægt er að setjast niður og ruslafata. Það er víða ábótavant á völlum landsins. Ekki stórt atriði en samt. Sama má segja um bekkina.
Golfklúbburinn Dalbúi – Miðdal
Klúbburinn var stofnaður 1989. Hafði hann þá aðstöðu fyrir neðan Héraðsskólann á Laugarvatni. Fyrsti formaður klúbbsins var Gunnar G. Schram. Hann var síðar gerður að heiðursfélaga í klúbbnum. Gunnar lést haustið 2004.
9. júlí 1994 tóku Dalbúar upp samstarf við Grafíu -Félag bókagerðarmanna og hófust handa við að byggja upp nýjan völl í Miðdal, sem er aðeins innan við Laugarvatn, en þar er völlurinn nú staðsettur. Völlurinn er 9 holur, en nægt landsvæði er fyrir 18 holu völl.
Nýr golfskáli var byggður árið 1999-2000 og árið 2003 var byggður pallur kringum húsið. Veitingasala er í skálanum ásamt aðgengi að sjónvarpi. Góð vélageymsla og vinnuaðstaða var sett upp árið 2005 sem gjörbreytti allri vélaaðstöðu klúbbsins.
Þess má geta að í Miðdal er gömul falleg kirkja sveitarinnar og þar er einnig að finna góðar sögulegar upplýsingar.
Þessi mynd er tekin frá 1. brautinn sem liggur samhliða 9. brautinni. Klúbbhúsið lengst til hægri.
Annar teigur til vinstri en til hægri má sjá 8. flötina en brautin er par 3.
Önnur flötin á Dalbúa.
Sjöunda og 5. flötin, hér hefði verið gaman að sameina flatirnar og búa til stóra sameiginlega flöt fyrir tvær brautir.
Sjötta flötin en brautin er par 5 og liggur í vinstri sveigju með nokkrum hættum á leiðinni.
Umhverfið í Miðdal er fallegt, fjöll og sveitin.
Bryndís Scheving, formaður Dalbúa, 9. flötin í baksýn.