„Við erum fyrst og fremst íþróttafélag“
Gríðarleg uppbygging hefur átt sér stað á tiltölulega stuttum tíma hjá Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar. Mögnuð heilsárs aðstaða og 23 golfhermar. „Fólk kemur í öllum veðrum,“ segir Agnar Már Jónsson, framkvæmdastjóri GKG.
Gríðarleg uppbygging hefur átt sér stað á tiltölulega stuttum tíma hjá Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar. Klúbburinn varð til við sameiningu Golfklúbbs Garðabæjar og Golfklúbbs Kópavogs árið 1994 en svæði félagsins er innan bæjarmarka bæjanna beggja. Vallarstæðið er í Vetrarmýri í landi Vífilsstaða í Garðabæ annars vegar og í Leirdal ofan við Salahverfi í Kópavogi hins vegar.
Til ársins 1996 voru aðeins 9 holur til afnota fyrir félagsmenn í Vetrarmýri en það ár var níu holu stækkun tekin í notkun á vellinum og strax í kjölfarið var hafist handa við byggingu seinni áfanga. Árið 2002 varð Vífilstaðavöllur fullkláraður og var hann leikinn í þeirri mynd til ársins 2007 þegar stækkun hans var tekin í notkun. Vífilstaðavelli var þá skipt upp í tvo velli. Annars vegar sem hluta af 18 holu velli (Leirdalsvöllur), par 71 og hins vegar níu holu völl (Mýrin), par 34.
Nýr golfskáli og glæsileg íþróttamiðstöð var vígð árið 2016 og svo stækkun tekin í notkun 2020 með inniaðstöðu sem á engan sinn líka hér á landi. Hinn 20. mars nk. mun GKG hýsa úrslitakeppni fyrsta Landsmótsins í golfhermum á Íslandi en mótið hefur staðið yfir síðan um miðjan janúar.
Kylfingur tók hús á Agnari Má Jónssyni, framkvæmdastjóra Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar á dögunum.
Agnar segir mikið vatn hafa runnið til sjávar á þeim tæpu 10 árum sem hann hefur starfað fyrir klúbbinn.
„Þegar ég kem hérna þá er klúbbhúsið gömul sjoppa frá Selfossi. Það var búið að bæta við hana afturábak og áfram eins og hægt var. Gólf var orðið fúið en það var samt mikill sjarmi yfir húsinu. Sveitarfélög voru ekki tilbúin í uppbyggingu á þessum tíma. Það var ekki fyrr en árunum 2014 og 2015 sem við förum af stað með fyrri hlutann á íþróttamiðstöðinni.“
Agnar segir að frá stofnun GKG hafi stjórnin alltaf lagt mikla áherslu á öflugt barna- og unglingastarf. Það hafi verið gert með því að ráða sem hæfasta kennara hverju sinni og reyna að skapa sem besta æfingaaðstöðu allan ársins hring.
Afreksstefna GKG var samþykkt árið 2002 og þá var ráðinn þjálfari fyrir afrekskylfinga en ekki var mikill skilningur innan klúbbsins fram að því, fyrir fjárfestingu í afreksmönnum í golfíþróttinni. Markvisst uppbyggingarstarf hófst í kjölfarið, sem hefur verið viðhaldið og endurbætt reglulega síðan. Sérstakt íþróttasvið með íþróttastjóra var stofnað og fljótlega skiluðu kylfingar úr GKG sér í fremstu röð á Íslandi. Árið 2007 var gerð ný sóknaráætlun í afreksmálum hjá GKG, sem skilað hefur góðum árangri.
„Þegar Garðabær sóttist eftir að fá æfingasvæðið okkar undir byggingaframkvæmdir sáum við okkur leik á borði að byggja upp heilsársæfingasvæði og fara í frekari uppbyggingu á svæðinu, sem hentar okkar íþróttastarfi vel. Það er auðvitað afleitt fyrir afreksstarfið að geta ekki slegið lengri högg en það er ekki langt í Odd, Keili eða GR ef því er að skipta.“
Agnar segir GKG hafa þá sérstöðu meðal golfklúbba á Íslandi að klúbburinn skilgreini sig fyrst og fremst sem íþróttafélag en ekki dæmigerðan golfklúbb.
„Við erum lýðheilsustofnun allrar fjölskyldunnar með u.þ.b. 2.700 félagsmenn og stærsta barna- og unglingastarf á Íslandi. Við vitum raunar ekki um stærra barna- og unglingastarf í heiminum í dag og höfum við leitað víða en ekki fundið. Það má segja að við eigum óstaðfest heimsmet þegar kemur að barna- og unglingastarfi.“
„Straumhvörf þegar við áttuðum okkur á okkar sérkennum“
Á 20 ára afmæli GKG var undirrituð viljayfirlýsing um stuðning sveitarfélaganna tveggja við byggingu félags- og íþróttaaðstöðu GKG og strax var hafist handa við undirbúning og svo framkvæmdir. Agnar segir að undirbúningur hafi m.a. falist í að hitta hina klúbbana og að eins konar þarfagreining hafi verið unnin í kjölfarið.
„Það gekk mjög vel allt frá því við fórum af stað og tveimur árum eftir undirritun viljayfirlýsingar vígðum við mannvirkið. Aðsóknin hefur verið mjög góð í íþróttamiðstöðina og hér er alltaf fullt frá morgni til kvölds þrátt fyrir veðurviðvaranir í öllum regnbogans litum. Í vetur hefur vallarstjórinn verið í snjómokstri til að halda öllu opnu. Við höfum reynt að forflytja snjó til að eiga pláss fyrir næstu holskeflu.“
Á þeim tíma sem framkvæmdir á íþróttamiðstöðinni voru í undirbúningi varð stóra byltingin í golfhermaheiminum þegar má segja að tveir tækniheimar hafi runnið saman.
„Annars vegar voru það golfkennarar og -klúbbar sem keyptu rándýr sveiflugreiningartæki á fleiri milljónir og hins vegar voru til golfhermar sem notuðust við mun verri tækni. Alvöru kylfingar sáu ekki mikinn tilgang í því að nota hermana. Þegar þessir tækniheimar runnu saman gátum við sem íþróttafélag réttlætt kaup á hermum sem nýtast sem sveiflugreiningartæki fyrir íþróttastarfið sem og afþreying og auðvitað æfing fyrir hinn almenna klúbbfélaga“, segir Agnar.
„Þegar ég hitti forsvarsmenn TrackMan á PGA ráðstefnu úti í Malmö á sínum tíma í fyrsta skiptið sagði ég þeim frá því hvað við vildum gera hjá GKG. Eftir mikla yfirlegu ákváðum við, vegna sérstöðu okkar sem íþróttafélags, að henda út golfbíla- og golfsettageymslu sem átti að vera á neðri hæðinni og teiknuðum inn íþróttamiðstöðina. Birgir Leifur Hafþórsson, Úlfar Jónsson og ég sjálfur sátum og störðum á teikningar þegar kviknaði á perunni og við sáum ljósið. Við áttuðum okkur á því að, sem íþróttafélag með umfangsmikið barna- og unglingastarf, værum við ekki að fara að byggja hefðbundið klúbbhús heldur íþróttamiðstöð og heilsárs æfingaaðstöðu.“
„Ég gleymi því augnabliki aldrei, þegar við sátum inni í gamla söluskálanum frá Selfossi með myndina uppi á vegg af drögunum, sem Helgi Már arkitekt var búinn að gera. Það var ekki einhver einn sem átti þá hugmynd – hún fæddist á því augnabliki. Tímasetningin var frábær því TrackMan var á þeim tíma í miðjum samningum við hugbúnaðarfyrirtæki um að koma sér inn í golfhermabransann. Framkvæmdastjóri TrackMan sagði mér síðar að hann muni svo vel eftir því þegar við hittumst fyrst. Hann sagði það hafa verið pínulítið sérstakt að hitta einhverja Íslendinga með voða fínar teikningar af flottu húsi og horfði ekki á okkur sem neitt annað en draumóramenn. Tveimur árum síðar var hann svo mættur hingað uppeftir til okkar í opnunina.“
Á þessum tíma var enginn golfklúbbur á Íslandi með alvöru golfhermaaðstöðu. Klúbbarnir voru ekki komnir á þennan stað og víða er aðstaðan ekki enn fyrir hendi. Agnar segir ekki flókið að selja sveitarfélögum svona hugmynd.
„Þarna erum við að fara fram sem íþróttafélag en ekki sem golfklúbbur, það er stóri munurinn. Á síðustu fjórum árum hefur þessi iðnaður virkilega sprungið út, vegna þess að þegar þú slærð högg í golfhermi í dag, endurspeglar hermirinn nákvæmlega það högg sem þú varst að slá og þú finnur það sem kylfingur. Meira að segja snillingar eins og Birgir Leifur, viðurkenna hermana sem góð æfingatæki. Sú tíð er liðin að fólk komi settunum fyrir í geymslunni í lok september og dusti rykið aftur af þeim í apríl, eins og var mjög algengt á sínum tíma.“
Agnar segir aðstöðumuninn mikinn. „Breytingin er gríðarleg, maður sér hjá krökkunum að viðhorf þeirra til vetraræfinga er farið úr því að mæta af skyldurækni og yfir í mikla tilhlökkun eftir að hermarnir komu. Það á eftir að skila sér á næstu árum í betri árangri því að það hefur gríðarlega mikið að segja að geta stundað þetta sport allt árið.“
Agnar sagði það hafa markað straumhvörf þegar GKG, áttaði sig á sínum einkennum og sinni sérstöðu sem íþróttafélag.
„Það breytti öllu og það hefur fylgt klúbbnum alla tíð síðan sem hefur leitt að sér að við höfum miklu betri tengingu við sveitarfélögin og meiri skilning. Við sitjum hér á mjög dýrmætu byggingarlandi en vegna þess hversu öflugt barna-, unglinga- og afreksstarfið hefur verið hjá okkur þá dettur engum það í hug, í eina sekúndu, að skerða möguleika okkar, með nokkrum hætti, á að halda áfram þessari þjónustu.“ segir Agnar.
Opna mótið og opna bandaríska mótið, Ryder- og Solheim-bikarinn
Í íþróttamiðstöð GKG eru hvorki fleiri né færri en 23 golfhermar frá TrackMan. Allur frágangur er hinn huggulegasti og heita svæðin eftir goðsagnakenndum golfmótum. „Við erum með 22 herma inni og svo eigum við eitt útitæki sem er eitt af þessum alvöru greiningartækjum sem golfklúbbar komu sér upp á sínum tíma."
Agnar segir fjárfestinguna mikla í aðstöðunni. "Þegar allt er talið nemur fjárfesting í golfhermum hjá GKG á annað hundrað milljónir króna en við lítum líka á þetta sem fjárfestingu. Við áttum okkur einnig á því að það þarf að viðhalda þessu því tæknin breytist. Við erum með samning um sjálfvirkar uppfærslur hugbúnaðar frá TrackMan svo hermarnir eru alltaf með nýjustu uppfærslu.“
Fréttamaður Kylfings rölti um aðstöðuna skömmu fyrir hádegi á föstudegi en þá var þétt setið. Heldri menn léku Chileno Bay, sem gárungarnir hafa viljað kalla Sandy Bay, en völlurinn er í Cabo San Lucas í Mexíkó.
„Við förum víða til að kynna okkur völlinn“, segir einn mannanna. Fréttamaður spyr hvort menn hafi nú ekkert betra að gera en þeir svara því til að spilið við félagana gefi besta peninginn í dag. Þeir segjast hittast einu sinni í viku og segja að aðstaðan sé hreint út sagt stórkostleg.
„Svo örkuðu þær í gegnum snjóskaflana“
„Fólk kemur hérna í öllum veðrum, sem er bara frábært – og alls konar fólk, á öllum aldri. Einn morguninn rennur jeppi hér inn á planið en það er snjóþungt mjög þann dag og leiðindaveður. Jeppinn situr pikkfastur og Gummi vallarstjóri er byrjaður að moka þegar farþegahurðin opnast og út stígur kona, við skulum segja, á besta aldri og svo önnur sem er aftur í á sama aldri. Þá rífa þær settin sín úr skottinu á jeppanum og henda þeim á bakið og svo örkuðu þær í gegnum snjóskaflana og hérna inn í hús til að missa ekki tímann sinn. Það er verst að eiga þetta ekki á mynd því svona efni hefði farið sigurför um golfheiminn trúi ég.“
Framundan er frekari uppbygging m.a. með nýjum níu holu velli hjá Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar en þá mun Mýrin leggjast af sem golfvöllur.
Kylfingur þakkar Agnari og starfsfólki GKG fyrir móttökurnar og minnir á að hann mun fylgjast vel með úrslitakeppni Landsmóts í golfhermum sem fram fer í íþróttamiðstöð GKG á sunnudaginn kemur.