Viðtal

Magnað að spila Gamla völlinn í keppni - segir einn efnilegasti kylfingur landsins
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
mánudaginn 12. júní 2023 kl. 12:55

Magnað að spila Gamla völlinn í keppni - segir einn efnilegasti kylfingur landsins

Gunnlaugur Árni Sveinsson, kylfingur úr GKG lék nýlega á alþjóðlegum mótum í Þýskalandi og í Skotlandi. Hann verður mikið á ferðinni í sumar en vegna góðrar stöðu hans á heimslista fyrir sumarið komst hann inn á mörg af bestu ahugamannamótunum. „Ég hef þess vegna tekið ákvörðun um að reyna að spila eins mikið erlendis og eg get,“ segir Gunnlaugur en hann lék á St. Andrews LinksTrophy í Skotlandi í síðustu viku, - og tók góð reynsluspor í  mekka golfsins.

„Ég var mjög ánægður að komast inn í þetta mót þar sem það mjög sterkt. Upplifunin að fá að keppa á Old Course i keppni er geggjuð og einnig að vera á þessu svæði. Þetta er náttúrulega Mekka golfsins. Ég spilaði nokkuð fínt golf en það var mjög svekkjandi að komast ekki í gegnum niðurskurðinn en svona er þetta stundum. Ég tek mikla reynslu úr þessu og verður vonandi gott veganesti fyrir Opna breska áhugamannamótið í næstu viku,“ segir Gunnlaugur en framundan eru mörg alþjóðleg mót hjá kappandum.

Links Trophy mótið er eitt sterkasta áhugamannamót í heimi. Fyrir tæpum aldarfjórðungi setti íslenskur kylfingur mark sitt á mótið. Þá lék Suðurnesjamaðurinn Örn Ævar Hjartarson og setti vallarmet á Nýja vellinum þegar hann lék á 60 höggum. Skorkort með vallarmetinu má sjá í klúbbhúsinu við Nýja völlinn.

„Mér fannst standa upp úr að spila 18. holuna. Að slá þetta teighögg, labba yfir (Swilken) brúnna og svo setti ég gott pútt í fyrir fugli til að gefa mer séns á að komast í gegnum niðurskurðinn.“

Vikuna á undan lék Gunnlaugur á German Boys and Girls og stóð sig vel og var nokkuð sáttur með frammistöðuna. „Heilt yfir var ég að spila gott golf en vantaði aðeins upp á að skora vel. Þetta var virkilega sterkt mót og gaman að hafa landsliðsþjálfara og tvo landsliðskylfinga með í mótinu,“ en auk Gunnlaugs voru þær Perla Sól Sigurbrandsdóttir, Íslandsmeistari kvenna og Sara Kristinsdóttir, meðal keppenda.

En hvar finnst Gunnlaugi hann standa í samanburði við kylfinga sem hann hefur verið að keppa við að undanförnu?

„Mér finnst ég vera á góðum stað í samanburði við þá sem ég var og er að keppa við. Ég og þjálfararnir mínir erum með okkar markmið sem við fylgjum og vinnum í og ég treysti því. Einnig var mikið af bestu háskólakylfingum frá Evrópu i þessu móti og gaman að keppa við þá þar sem ég stefni á að spila háskólagolf í Bandaríkjunum,“ segir Gunnlaugur.