Viðtal

Friðrik Þór á tökuvélinni á OPNA mótinu á Royal Liverpool
Þriðjudagur 18. júlí 2023 kl. 15:56

Friðrik Þór á tökuvélinni á OPNA mótinu á Royal Liverpool

„Það er gaman að vera í kringum bestu kylfinga heims og ég mun mynda þá á OPNA mótinu á Royal Liverpool í Englandi. Ég var t.d. með myndavélina á eftir Rory McIlroy og Scottie Scheffler í heilan dag um síðustu helgi á Scottish Open,“ segir Friðrik Þór Halldórsson, myndatökumaður en hann er núna við störf fyrir alþjóðlegan aðila sem hefur yfirumsjón með myndatöku á stærsta golfmóti ársins, OPNA mótinu sem fram fer á Hoylake vellinum í Englandi 20.-23. júlí.

Friðrik hefur einn íslenskra kvikmyndatökumanna myndað á öllum Íslandsmótum í höggleik í beinni útsendingu. Fyrsta skiptið var á Hólmsvelli í Leiru 1998 og Friðrik verður á Urriðavelli í ágúst þegar 26. mótið fer fram. 

Friðrik myndaði fyrst golf árið 1997 þegar en þá var Íslenska mótaröðin sýnd á Sýn í fyrsta skipti. Ári síðar var fyrsta beina útsendingin í Leirunni. Friðrik hefur alla tíð myndað mikið fyrir Stöð 2 og fleiri stöðvar nú í seinni tíð einnig, en enginn hefur myndað golf jafn mikið og hann.

„Ég leitaðist eftir tækifærum hjá DP Evrópumótaröðinni og það kom í fyrra og á þessu ári verð ég í að minnsta kosti sex mótum. Helsti munurinn á því að vera að vinna þarna úti og heima eru græjurnar. Það er allt til alls hér úti. Það verða um hundrað myndavélar á OPNA mótinu og þar af um tuttugu þrjáðlausar. Við höfum verið að nota tvær slíkar á Íslandsmótinu en auðvitað fleiri á þrífæti. Í grunninn er þetta þó sama vinnan, mynda golfboltann og þá sem eru að slá hann,“ sagði Friðrik Þór meðal annars í myndspjalli frá Royal Liverpool við Páll Ketilsson, ritstjóra kylfingur.is. Myndskeiðið fylgir með fréttinni.