Viðtal

Íslandsmótið á þrítugum Urriðavelli
Tíunda brautin er ein af mörgum glæsilegum holum Urriðavallar.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
fimmtudaginn 22. júní 2023 kl. 14:42

Íslandsmótið á þrítugum Urriðavelli

Konur fjölmennar í Golfklúbbnum Oddi. 1800 félagar. Biðlisti í klúbbinn.

„Undirbúningur fyrir Íslandsmótið gengur vel. Það er stærsta verkefni hvers klúbbs og það er gaman að fá það verkefni á þrjátíu ára afmæli Golfklúbbsins Odds,“ segir Þorvaldur Þorsteinsson, framkvæmdastjóri. 

Golfklúbburinn Oddur sem skartar einum af fallegri golfvöllum landsins, Urriðavelli, mun halda Íslandsmótið í ár en klúbburinn gerði það síðast árið 2006. Klúbburinn fagnaði nýlega þrjátíu ára afmæli og stærsta mót ársins, Íslandsmótið verður á Urriðavelli 10.-13. ágúst. Þorvaldur hefur verið framkvæmdastjóri klúbbsins undanfarin átta ár og golfsumarið hefur farið ágætlega af stað þrátt fyrir ýmsar áskoranir, m.a. vegna erfiðs veðurfars í vetur.

Framkvæmdir við Urriðavöll hófust í kringum 1990 að frumkvæði Golfklúbbs Oddfellowa og var hann í fyrstu aðeins 9 holur við stofnun Golfklúbbsins Odds árið 1993. Strax tveimur árum síðar var hann orðinn átján holur. Þorvaldur byrjaði á að fara yfir ástand vallarins. 

„Brautirnar komu bara nokkuð vel undan vetrinum en flatirnar áttu bágt. Við erum alltaf svolítið á eftir hinum völlunum hér á höfuðborgarsvæðinu því við erum innar í landinu og gátum ekki opnað fyrr en 28. maí og þurftum meira að segja að nota vetrarflatir til að byrja með og hafa eina braut lokaða. Kylfingurinn veit að það er ekki hægt að líkja þannig golfi við „alvöru“ golf en svona er þetta bara, við þurftum bara að sætta okkur við þetta. Það er erfitt að berjast við veðurguðina en við erum nýlega búnir að opna allar brautir og flatir, nú er sumarið komið. Þegar hitinn og sólin kemur, er völlurinn venjulega fljótur að taka við sér og maður sér breytingu dag frá degi núna, hann er allur að loka sér og koma til. Við erum að opna völlinn kl. átta í dag og höfum tíu mínútur á milli holla en munum síðan opna klukkan sjö og færa þá bilið aftur niður í níu mínútur. Við viljum aðeins hlífa honum eftir þennan erfiða vetur. Ef almennur kylfingur vill koma samdægurs þegar allt er komið á fulla ferð og við með opið frá sjö til tíu á kvöldin, eru líkurnar ekki beint með honum að fá rástíma. Við erum mjög þéttsetin yfir háannatímann.“

Með þeim fyrstu með númerakerfið á teigum

Að breyta fyrirkomulaginu varðandi teiga úr litakerfinu þar sem algengt var að tala um „kvenna- og karlateiga“, er einhver jákvæðasta breytingin sem hefur orðið á golfíþróttinni að sögn Þorvaldar. 

„Við vorum með þeim fyrstu að breyta teigunum í númerakerfi, þar sem viðkomandi tala sýnir lengd vallarins frá þeim teig sem spilað er af. Þetta er ótrúlega jákvæð breyting en mörgum karlkyflingnum fannst eflaust niðurlægjandi að færa sig af gulum teig yfir á rauðan „kvenna- eða öldungateig“, þetta tal er úrelt og algerlega óþarft. Kylfingurinn ræður einfaldlega af hvaða teig hann eða hún spilar og fær forgjöf út frá viðkomandi teig. Við gáfum út viðmið eða tilmæli fyrir okkar meðlimi, reyndum að leiðbeina þeim frá hvaða teig væri best fyrir viðkomandi að slá. Þetta miðast við forgjöf, hversu langt slegið er með driver og þegar kylfingurinn var búinn að sjá þessi viðmið og mátaði sinn leik við það, naut hann síns golfs margfalt betur því maður vill geta átt annað höggið inn á flöt með háu járni. Það finnst engum gaman að brasa með hálfvita til að komast í tækifæri á að pútta fyrir fugli,“ segir Þorvaldur.

1800 meðlimir og öðruvísi stigamótaröð

Það hefur verið biðlisti að komast í Odd undanfarin ár. „Við erum með rúmlega 400 manns á biðlista í dag en við metum klúbbinn fullan með 1800 manns en þar af eru 1300 með fulla aðild og 500 sem eru með svokallaða „Ljúflingsaðild.“ Þeir spila eingöngu „Ljúflingsvöllinn“ en hann er níu holu par þrjú völlur. Við metum stöðuna þannig að klúbburinn sé fullur og getum ekki tekið fleiri meðlimi inn en þetta eru nær eingöngu aðilar sem búa á höfuðborgarsvæðinu. Garðbæingar eru hlutfallslega flestir, næstir koma Kópavogsbúar en Urriðavöllur tilheyrir landsvæði Garðabæjar. 

Við erum ekki með mikið af opnum mótum, aðallega vegna þess að við viljum leyfa hinum almenna meðlimi að spila sem mest. Við erum með ansi skemmtilega innanfélagsmótaröð sem svipar til sveitakeppni. Fólk myndar sex manna lið og tvö efstu skorin í hverju móti gilda í heildarkeppninni, sem er mjög fjölbreytt. Stundum er spilað venjulegt punktamót, stundum Texas, Greensome eða eitthvað annað. Tvö efstu skorin í hverju móti telja fyrir viðkomandi lið og allt endar með flottu lokahófi. Þetta hefur eflt félagsandann gífurlega og alltaf mikil stemning í kringum þessi mót. Ekkert kemur þó í staðinn fyrir meistaramótið en þá er hátíð hjá okkur hér hjá Oddi. Við förum öðruvísi að en flestir klúbbar, spilum mótið frá laugardegi til laugardags og ræsum bara út frá sjö á morgnanna til þrjú á daginn. Þetta gerum við til að gefa þeim sem vilja ekki keppa, kost á að spila sitt golf. Þetta hefur mælst vel fyrir hjá okkar meðlimum. Hlutfall kvenna í klúbbnum er með því hærra sem gerist á Íslandi og ég tel það mjög jákvætt því konurnar gera meiri kröfur um ýmislegt sem karldýrið er oft ekkert að spá í, t.d. varðandi salernisaðstöðu úti á velli, að hafa snyrtilegt og það séu góðar veitingar í boði inni í skála.“

Íslandsmótið haldið á Urriðavelli

Hápunkturinn í starfi Odds í sumar er sjálft Íslandsmótið en það fer fram á Urriðavelli dagana 10-13. ágúst. „Völlurinn verður kominn í toppstand þegar Íslandsmótið fer fram, ég lofa því. Þetta er í annað sinn sem við höldum mótið, héldum það árið 2006 svo það var heldur betur kominn tími á okkur. Það eru fáir í kringum starfið í dag sem voru þegar við héldum mótið fyrst en við höfum góða reynslu af því að halda stór mót, höfum t.d. haldið tvö Evrópumót og svo höfum við oft verið með GSÍ-stigamót. Auðvitað er meira álag á mér þetta sumarið vegna þessa stóra móts en undirbúningur hófst strax í vetur. Að mörgu þarf að huga en með góðu skipulagi hef ég engar áhyggjur af því. Það er ekki sjálft mótahaldið sem mesta orkan fer í, við fáum aðstoð frá GSÍ við það en það er svo margt annað sem þarf að huga að í undirbúningnum, t.d. bílastæði fyrir gesti. Við höfum verið svo heppin að fá 70-80 sjálfboðaliða þegar þegar við höldum stór mót og ég veit að það verður ekki vandamál að fá þann fjölda þessa daga sem Íslandsmótið verður haldið. Það eru hin ýmsu störf sem þessir sjálfboðaliðar inna af hendi, allt frá því að stjórna bílaumferð í að vera „for-caddý“, með öðrum orðum „ball-spotter.“ Það er aðeins um blind högg á Urriðavelli og þegar þessir högglöngu kylfingar mæta til leiks, er nauðsynlegt að hafa sjálfboðaliða sem þekkja völlinn út og inn og vita, eða hafa tilfinningu fyrir hvar viðkomandi bolti lenti. Rúv sýnir beint frá mótinu og ég hef verið og mun verða í samskiptum við aðila frá þeim svo það er og verður nóg að gera sem er bara gaman,“ segir Þorvaldur.

Skemmtilegast að slá lengra en félagarnir

Þorvaldur er rétt rúmlega „bogey“-spilari, vill að sjálfsögðu verða betri en þarf þá að hafa meiri tíma til æfinga. „Ég er með fjórtán í forgjöf og myndi auðvitað vilja vera betri en þá þarf einfaldlega að æfa sig meira, það er ekki nóg að kaupa bara nýja kylfu. Ég ætti auðvitað að spila Ljúflinginn oftar en þá er maður meira að æfa höggin sem sumir vilja meina að telji mest, innáhöggin og högg upp við flatir. Minn styrkur í golfinu liggur í drævunum og viðurkenni fúslega að kassinn þenst aðeins út þegar ég yfirdræva félagana í hollinu. Annars er ég bara sáttur í þeirri forgjöf sem ég er í, þyrfti að æfa meira til að lækka mig og þá kannski helst yfir vetrartímann en við hjá Oddi erum ekki með inniaðstöðu. Hún mun koma, það er ég sannfærður um en við erum í landi Oddfellow sem eru góðgerðarsamtök en landið þeirra er innan bæjarmarka Garðabæjar. Þess vegna hefur kannski ekki gengið sem skyldi að fá bæjaryfirvöld í Garðabæ til að byggja með okkur þessa inniaðstöðu því landið er ekki í eigu þess. Oddfellow vill styðja við uppbyggingu golfsvæðisins því það er verðugt lýðheilsuverkefni en auðvitað væri eðlilegast að Garðabær komi að þessu með myndarlegum hætti, ég hef trú á að það verði fyrr en síðar,“ sagði Þorvaldur að lokum.

Klúbbhúsið og púttflötin er til vinstri.

Átjánda brautin er ein erfiðasta lokabraut landsins.

Sextánda flötin umvafinn hrauni.