Fréttir

„Ég ætlaði ekki að trúa eigin augum“
Jóhannes Elíasson með boltann góða við 8. holuna á golfvellinum Glanna í Borgarfirði. Ljósmynd: Aðsend
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
mánudaginn 25. júlí 2022 kl. 07:53

„Ég ætlaði ekki að trúa eigin augum“

Jóhannes Elíasson fékk albatross - fór holu í höggi á par 4, 8. holu á Glanna í Borgarfirði

Líkurnar á að fara holu í höggi á par 3 holu á 18 holu hring eru ekki taldar vera meiri en 1 á móti 12.000. Að fara holu í höggi á par 4 holu á 18 holu hring er enn ólíklegri atburðarás. Talið er að líkurnar á slíku draumahöggi, albatross, séu um það bil 1 á móti milljón.

Jóhannes Elíasson, rakari, meðlimur í Golfklúbbi Ásatúns hefur sögu að segja.

„Ég og félagi minn, Sigurður Friðgeir Friðriksson, vorum að spila á golfvellinum Glanna í Borgarfirði fyrr í mánuðinum. Veðrið var fínt og við vorum komnir á 8. teig. Holan er par 4, 209 metra löng. Brautin er frekar þröng og útsýnið takmarkað en sitt hvoru megin við brautina eru trjáhríslur. Ég var með dræver í höndunum, Ping 410, og Titleist Pro V1 bolta. Ég hitti vel og boltinn flaug þráðbeint, mjög flotta línu í átt að flöt. Sigurður hafði á orði að þessi færi sennilega beint inn á flötina. Ég var rólegur yfir þessu og sagði að það yrði að koma í ljós. Þegar við komum á flötina var boltinn hvergi sjáanlegur. Við leituðum aðeins í karganum og við tré sem staðsett eru í hrauninu en hvergi var boltann að sjá. Þá gekk Sigurður að holunni í rælni og hljóðaði upp yfir sig að hann væri ofan í holunni. Ég ætlaði ekki að trúa eigin augum en tilfinningin var stórkostleg og ég gleymi henni aldrei og ég gleymi aldrei þessum magnaða degi í Borgarfirði,“ sagði Jói rakari, kampakátur, að lokum.