Fréttir

Kate Stillwell ráðin vallarstjóri GKG
Kate með þeim Guðmundi Árna og Agnari.
Þriðjudagur 23. apríl 2024 kl. 14:05

Kate Stillwell ráðin vallarstjóri GKG

Kate Stillwell hefur verið ráðin vallarstjóri GKG. Kate hefur víðtæka reynslu í umsjón og uppbyggingu golfvalla. Nú síðustu árin hefur hún unnið að byggingu 18 holu golfvallar í London, The Inspiration Club.

Samhliða starfi sínu sem vallarstjóri hefur hún hefur unnið við að undirbúa fjölmarga golfvelli út um allan heim undir stórmót í golfi eins og t.d. Ladies European Tour í Marocco 2019, The French Open - Ryder Cup í París, Irish Open í K Club, Turkish Open árin 2015 til 2018, India Hero Open í Delí árin 2015 til 2019, PMW PGA championship í Wentworth 2014 til 2016.

Það má segja að Kate hafi grasvallarfræðin í genunum því faðir hennar, Richard Stillwell, var aðalgrasvallarsérfræðingur Evróputúrsins í 34 ár samfleytt. Þá eru báðir bræður Kate vallarstjórar.

„Ráðning Kate er liður í þeirri vegferð okkar að fjölga menntuðum grasvallarsérfræðingum í klúbbnum, Guðmundur Árni Gunnarsson verður eftir ráðningu Kate sviðsstjóri Vallarsviðs. Þá hefur Viktor Freyr Sigurðsson tekið við stöðu aðstoðarvallarstjóra en hann mun hefja nám í grasvallarfræðum við Elmwood skólann í Skotlandi næsta haust,“ segir í tilkynningu frá GKG.