Fréttir

„Andrúmsloftið breytist með stemningunni innan liðsins“
Guðrún Brá Björgvinsdóttir. Ljósmynd: Tristan Jones/LET
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
miðvikudaginn 11. maí 2022 kl. 15:22

„Andrúmsloftið breytist með stemningunni innan liðsins“

Guðrún Brá hefur leik á Aramco Team Series í Bangkok í nótt

Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK, hefur leik á Aramco Team Series í Bangkok í Taílandi í nótt. Mótið er hluti af Evrópumótaröðinni og er það fyrsta í röð fimm móta sem bera heitið Aramco Team Series og haldin eru víðsvegar um heim.

Aramco Team Series mótin eru meðal stærstu móta hvers keppnistímabils á mótaröðinni. Á mótinu í Bangkok verða leiknir þrír hringir á Thai Country Club . Verðlaunafé nemur einni milljón Bandaríkjadala.

Á Aramco Team Series, er eins og nafnið gefur til kynna leikið í liðakeppni, en þó er mótið einnig einstaklingskeppni, eins og önnur mót á Evrópumótaröðinni. Liðakeppnin fer fram fyrstu tvo keppnisdagana samhliða einstaklingskeppninni en á lokadeginum, eftir niðurskurðinn, er eingöngu keppt í einstaklingskeppni.

Hér er hægt að fylgjast með stöðunni á mótinu

Kylfingur tók Guðrúnu Brá í létt spjall í dag en hún segist vera mjög ánægð með liðið sitt.

„Þær Marianne Skarpnord frá Noregi og Linda Wessberg frá Svíþjoð eru með mér í liði. Ég er mjög sátt við það því ég þekki þær báðar. Við verðum fjórar í liði en einn áhugamaður er auk okkar atvinnumannanna í hverju liði. Ég hlakka mikið til að spila á mótinu. Þó mótið sé auðvitað einstaklingskeppni og við allar í keppni við hver aðra, þá breytist andrúmsloftið aðeins með stemningunni innan liðsins.“

„Liðakeppnin fer þannig fram að tvö bestu skorin gilda á hverri holu. Völlurinn sem við spilum er mjög flottur og í frábæru standi. Hann er frekar fyrirgefandi af teig en það er samt nauðsynlegt að staðsetja sig vel upp á innáhöggið að gera. Það eru yfir 30 gráður hérna og rakt. Það hefur verið mikil rigning undanfarið og þrumuveður þannig að ég held að þolinmæðin komi sterk inn næstu daga. Við gætum lent í einhverju stoppi vegna veðurs,“ segir Guðrún Brá Björgvinsdóttir að lokum.

Karoline Lund frá Noregi og Sofie Bringner og Josefine Nyqvist frá Svíþjóð ásamt Guðrúnu Brá þegar dregið var í lið í Bangkok. Ljósmynd: Tristan Jones/LET

Lið Guðrúnar Brár verður ræst út á fyrsta hring laust fyrir klukkan fjögur í nótt og um hálfþrjú aðra nótt á íslenskum tíma.

Kylfingur fylgist vel með okkar fólki í atvinnumennsku.