Fréttir

Scottie Scheffler sigraði á Arnold Palmer Invitational
Scottie Scheffler
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
sunnudaginn 6. mars 2022 kl. 23:56

Scottie Scheffler sigraði á Arnold Palmer Invitational

Annar sigur hans á PGA mótaröðinni

Bandaríkjamaðurinn Scottie Scheffler sigraði á Arnold Palmer Invitational á PGA mótaröðinni. Hann lék hringina fjóra á 283 höggum (70-73-68-72) eða 5 höggum undir pari Bay Hill vallarins í Orlando. Það er óhætt að segja að á mótinu hafi orðið sviptingar enda völlurinn bæði mjög krefjandi og vindur þónokkur á köflum.

Lokastaðan á mótinu

Norður-Írinn Rory McIlroy leiddi eftir fyrsta hring en honum fataðist flugið jafnt og þétt og lauk leik á 1 höggi yfir pari og hafnaði í 13.-16. sæti.

Jon Rahm, efsti kylfingurinn á heimslistanum, sem margir spáðu sigri á mótinu, hafnaði í 17.-19. sæti á 2 höggum yfir pari.

Norðmaðurinn Viktor Hovland var með tveggja högga forskot eftir annan keppnisdaginn.

Rétt eins og McIlroy átti hann ekki sérstaka helgi og hafnaði að lokum í 2.-4. sætinu ásamt Englendingnum Tyrrell Hatton og Billy Horschel frá Bandaríkjunum.

Horschel, sem deildi forystunni fyrir lokahringinn með öðrum Bandaríkjamanni, Talor Gooch, tapaði dýrmætum höggum á endasprettinum og hleypti Scheffler að titlinum.

Að vinna mót á Bay Hill snýst um smáatriði. Kylfingar koma yfirleitt ekki í hús á mjög lágu skori. Það sem gerði útslagið hjá Scheffler var annars vegar járnaspilið nær allt mótið og hins vegar öryggi á flötunum.

Þetta er annað mótið á PGA mótaröðinni sem Scheffler vinnur á sínum atvinnumannaferli en hann stóð uppi sem sigurvegari á Phoenix Open í febrúar.

Næsta mót á PGA mótaröðinni er sjálft Players mótið á TPC Sawgrass í Flórída en mótið hefst á fimmtudag.