Guðmundur Ágúst komst inn á lokaúrtökumótið á Spáni - mörg stór nöfn meðal keppenda
„Það var ánægjulegt að komast inn í lokamótið og þetta leggst bara ágætlega í mig. Ég þekki vellina vel og komst áfram á DP mótaröðina eftir lokamótið á þessum stað 2022,“ segir Guðmundur Ágúst Kristjánsson, atvinnukylfingur sem er meðal 156 keppenda á lokaúrtökumótinu fyrir DP mótaröðina á Infinitum golfsvæðinu á Spáni sem hefst á föstudag.
Það hefur oft verið talað um að lokaúrtökumótið sé erfiðasta golfmót í heimi en leiknir eru sex hringir en niðurskurður er eftir fjóra. Efstu 20-25 fá þátttökurétt á DP þannig að til mikils er að keppa. Guðmundur Ágúst náði því 2022 og lék á DP keppnistíðina 2023. Hann náði ekki að vera meðal 125 efstu og komst ekki á lokamótið 2023 og lék á Áskorendamótaröðinni í ár ásamt Haraldi Franklín sem keppti á öðru stiginu í síðustu viku eins og Guðmundur en endaði jafn í 37. sæti sem dugði ekki til að komast á lokamótið.
Guðmundur hefur tvisvar leikið á lokamótinu, í bæði skiptin á þessu golfsvæði, 2019 og 2022 en þetta mót hefur verið þar síðustu sex árin. Leikið er á Hills og Lakes völlunum sem eru ólíkir, annar mikll vatnavöllur og hinn skógarvöllur.
Mjög margir sterkir og þekktir atvinnukylfingar eru meðal keppenda, m.a. fjórir fyrrum Ryder leikmenn, þeir Stephen Gallagher, Oliver Wilson, Chris Wood og Edoardo Molinari sem er núverandi aðstoðarliðsstjóri Ryderliðs Evrópu. Auk þeirra má sjá þekkt nöfn eins og James Morrison, Renato Paratore, David Horsey, Justin Harding, Gonzalo Fernandez-Castaño, Marc Warren, George Coetzee, Lee Slattery og Tom Lewis. Þá er hægt að nefna nýstsirnið frá Danmörku, áhugamanninn Jacob Skov Olesen en hann vann Opna breska áhugamanna í sumar.
Guðmundur þurfti að fara í bráðabana á mótinu í síðustu viku en það var á öðru stigi. Hann var eftir það í 6. sæti á biðlista fyrir lokamótið og fékk svo tilkynningu um það í byrjun vikunnar að hann væri kominn inn.
„Ég dreif mig frá Malaga og kom á svæðið á þriðjudag. Auðvitað hefði verið betra að vera kominn aðeins fyrr en því var ekki að fagna. Ég næ æfingahring á hvorum velli sem er gott. Það er búið að vera mikil rigning að undanförnu og vellirnir eru mjög blautir,“ segir okkar maður sem hefur leik á morgun, föstudag kl. 10.50. Hann er í ráshópi með Englendingnum Eddie Pepperell og Benjamin Follett-Smith frá Zimbabwe.
Kylfingur.is mun fylgjast með gengi Guðmundar á hverjum degi.