Fréttir

Norman Xiong besti háskólakylfingur síðan Tiger Woods
Norman Xiong.
Mánudagur 16. apríl 2018 kl. 10:00

Norman Xiong besti háskólakylfingur síðan Tiger Woods

Það er ekki á hverjum degi sem einhverjum er líkt við Tiger Woods, og kannski ekki furða á því. Fyrrverandi liðsfélagi Woods, Casey Martin, sem nú þjálfar háskólalið Oregon Háskólans, segir að Normon Xiong, einn af leikmönnum sínum, sé besti kylfingur sem hann hefur séð síðan að hann lék með Tiger Woods.

Martin hefur þjálfað marga frábæra leikmenn hjá Oregon, en sjálfur spilaði hann með Woods hjá háskólaliði Stanford Háskólans. Á sínum tíma lék hann á 43 PGA mótum og vann eitt mót á Nike mótaröðinni (Web.com í dag). Sem þjálfari hefur hann bæði unnið liðakeppni bandaríska háskólagolfsins og þjálfað einstakling sem sigraði einstaklingskeppnina. Það er því ljóst að Martin er fróður og gæti hugsanlega haft rétt fyrir sér.

„Þegar að Xiong gerist atvinnumaður, þá veit ég ekki hvað mun gerast, ég er ekki mikið fyrir það að spá fyrir um hluti af því að ég veit hreinlega ekki hvað gerist. En það sem ég hef séð, á þessum aldri, þá veit ég ekki hvort ég hafi séð betri kylfing öll mín ár sem þjálfari. Eini leikmaðurinn sem ég get borið hann saman við er Tiger Woods. Ég er ekki að segja að hann sé endilega að fara að afreka það sama og Woods og aðrir frábærir kylfingar, aðeins að á þessum aldri þá sé hann jafn góður, ef ekki betri en margir af þeim bestu kylfingum sem ég hef séð.“

Sjálfur segist Xiong, sem er aðeins 19 ára gamall, að hann taki þessu sem miklu hrósi og staðfesti aðeins að hann sé að gera rétta hluti.

„Þetta er eitthvað sem ég elska að heyra, af því ég vil afreka það sem Tiger hefur afrekað. Vera bestur og hafa áhrif á golfleikinn á einhvern hátt.“

Það verður því gaman að fylgjast með þessum unga kylfingi, en hann mun að öllum líkindum gerast atvinnumaður eftir að háskólatímabilinu lýkur og mun hann þá leika á einhverjum mótum á PGA mótaröðinni.