Fréttir

Asíska mótaröðin: Sterkir kylfingar á Saudi International
Dustin Johnson hefur titil að verja á Saudi International
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
miðvikudaginn 2. febrúar 2022 kl. 15:23

Asíska mótaröðin: Sterkir kylfingar á Saudi International

Margir sterkustu kylfinga heims taka þátt í fyrsta móti Asísku mótaraðarinnar í ár, Saudi International, um helgina.

Nýliðnu keppnistímabili lauk um miðjan janúar sl. og teygði sig því inn á þriðja almanaksárið vegna heimsfaraldurs Covid-19. Það var hinn 19 ára Kóreumaður, Kim Joo-hyung sem stóð uppi sem sigurvegari á mótaröðinni.

Það má segja að Saudi International sé flaggskip Asísku mótaraðarinnar en meðal sigurvegara undanfarin ár á þessu sterka móti eru Norður-Írinn Graeme McDowell og Bandaríkjamaðurinn Dustin Johnson en hinn síðarnefndi bar sigur úr bítum á mótinu á síðasta ári.

Golfíþróttin hefur verið í miklum vexti í Asíu á undanförnum misserum, einkum eftir sigur Hideki Matsuyama á Masters mótinu á Augusta vellinum í Georgia í apríl í fyrra.

Kylfingar frá 33 mismunandi löndum munu etja kappi um helgina og telja veðbankar Dustin Johnson, sem á titil að verja, sigurstranglegastan. Þar á eftir koma þeir Tyrrell Hatton, Cameron Smith, Xander Schauffele og Bryson Dechambeau. Jon Rahm, efsti kylfingurinn á heimslistanum, er ekki meðal keppenda um helgina. Það er til mikils að vinna en verðlaunafé á mótinu nemur um 5 milljónum Bandaríkjadala.