Viðtal

Erfitt að týna boltum á Þorláksvelli
Miðvikudagur 3. maí 2023 kl. 16:42

Erfitt að týna boltum á Þorláksvelli

Kylfingar leika í Þorlákshöfn allan ársins hring

„Við erum stoltir af því að geta boðið upp á golf allan ársins hring, þeim fer stöðugt fjölgandi höfuðborgarbúunum sem ganga í klúbbinn okkar,“ segir Guðmundur Baldursson, starfandi formaður Golfklúbbs Þorlákshafnar (GÞ).

GÞ hefur nokkra sérstöðu á meðal golfklúbba á Íslandi en hægt er að leika golf á Þorláksvelli á sumarflötum allan ársins hring. Víða tíðkast að verja flatirnar yfir hörðustu mánuðina og þá leita golfþyrstir kylfingar iðulega á þá fáu velli sem eru opnir á sumarflatir allt árið. Einn þeirra er Þoláksvöllur.

Fjölgar í klúbbnum

Guðmundur hefur gegnt stöðu formanns GÞ undanfarin ár og er rekstrarstjóri klúbbsins. „Það eru um fimm hundruð meðlimir í klúbbnum en inni í þeirri tölu eru kylfingar sem eru í öðrum klúbbi en með aukaaðild hjá okkur. Það er alltaf að aukast fjöldi klúbbmeðlima af höfuðborgarsvæðinu, við erum ekki svo langt þaðan í burtu. Meirihlutinn í klúbbum eru fullborgandi meðlimir en það er gott að geta boðið upp á svona aukaaðild, við fáum mjög margar heimsóknir á völlinn okkar á vorin og þegar viðrar til golfiðkunnar, er oft mjög margt hjá okkur á veturna. Það var ekki mikið um golf í vetur enda veturinn ansi þungur en síðustu árin hefur alltaf verið talsverð umferð hjá okkur alla vetrarmánuðina. Oft er ágætis veður á veturna og þó það sé kalt, er alltaf hægt að klæða sig betur og leika sér í golfi.“

Nýir teigar

Sumarið leggst vel í Guðmund. „Við erum alltaf að betrumbæta völlinn okkar, breyta honum og laga. Við tókum nokkra teiga í gegn í fyrra, sérstaklega voru nýir fremri teigar teknir í notkun og við stefnum á annað eins í sumar. Við erum komnir með vökvunarkerfi við allar flatir og flesta teiga en við viljum stöðugt vera bæta völlinn. Við gerum langtímaáætlun en venjulega þurfum við að beygja aðeins af þeirri leið og þá er það ekkert mál, við í stjórninni tökum þessar ákvarðanir bara saman og reynum að gera það sem við teljum henta best hverju sinni. Ég á ekki von á öðru en það verði mikil umferð um völlinn okkar í sumar, hann er þægilegur að spila og hentar í raun öllum. Eðlilegur spilatími er um þrír og hálfur klukkutími sem er gott. Það er erfitt að týna boltum á Þorláksvelli, því er mjög óalgengt að bið myndist á milli ráshópa.“ 

En hvernig kylfingur er Guðmundur? 

„Ég hef ekki getað stundað golf undanfarin ár, lappirnar og mjaðmirnar hafa gefið eftir og því hef ég ekkert verið að spila. Ég var nú svo sem aldrei á leiðinni að verða afrekskylfingur og komst neðst í tuttugu og fimm í forgjöf. Heilsan og í raun hve mikið er að gera í kringum golfklúbbinn og á vellinum, minnkaði spilamennsku mína mjög mikið. Hver veit, kannski ég reyni eitthvað að dusta rykið af kylfunum í sumar,“ sagði Guðmundur að lokum.