Fréttir

Sigurbjörn á parinu í Þorlákshöfn
Mánudagur 29. maí 2023 kl. 21:58

Sigurbjörn á parinu í Þorlákshöfn

Eldri kylfingar héldu áfram baráttu sinni við veðurguðina á Opna Icewear mótinu í Þorlákshöfn í dag. Í dag tókst að ljúka leik og mörg góð skor litu dagsins ljós í mjög krefjandi aðstæðum á Þorláksvelli.

Sigurbjörn Þorgeirsson GF lék á pari vallarins 72 höggum. Á hringnum fékk hann 5 fugla og 5 skolla. Tryggvi Valtýr Traustason GSE lék á 74 höggum eins og Hjalti Pálmason GM.

Margeir golfferð
Margeir golfferð

Þórdís Geirsdóttir GK lék best í kvennaflokki á bláum teigum. Þórdís lék á 82 höggum, 5 höggum betur en Ásgerður Sverrisdóttir GR.

Í flokki 65 ára og eldri kvenna lék Guðrún Garðars GR á 85 höggum. Frábær frammistaða við erfiðar aðstæður en Guðrún hefur eins og fjölmargir kylfingar á LEK mótaröðinni æft af kappi í vetur. Á LEK mótaröðinni er leikið í fjölmörgum flokkum og má nálgast nánari úrslit hér.

Það verður að teljast nokkuð sérstakt að unglingar og eldri kylfingar hafa hafið keppnistímabilið af fullum krafti en ekkert er að frétta af mótahaldi fyrir bestu kylfinga landsins. Sannarlega undarleg þróun að lítinn sem engan keppnisvettvang sé að finna fyrir fremstu kylfinga landsins. Fyrsta móti ársins var aflýst á Akranesi. Ekki vænlegt til árangurs.