Fréttir

Scottie Scheffler með vallarmet í Houston
Scottie Scheffler hrökk í gang og setti vallarmet á öðrum hring Hewlett Packard Enterprise Houston Open mótsins.
Nökkvi Gunnarsson
Nökkvi Gunnarsson skrifar
laugardaginn 13. nóvember 2021 kl. 09:52

Scottie Scheffler með vallarmet í Houston

Eftir vonbrigði á fyrsta hring sem hann lék á tveimur höggum yfir pari átti Scottie Scheffler sennilega ekki von á því að setja vallarmet á öðrum hring.

En hlutirnir breytast fljótt í golfi, Scheffler hrökk heldur betur í gang og lék annan hringinn á 62 höggum og eignaði sér um leið vallarmetið á Memorial Park vellinum.

Margeir golfkennsla
Margeir golfkennsla

Það er þó Martin Trainer sem er í forystunni þegar mótið er hálfnað á 10 höggum undir pari. Hann hefur leikið báða hringina til þessa á 65 höggum.

Trainer þessi sigraði á Puerto Rico Open sem nýliði árið 2019 en síðan þá hefur ekkert gengið. Hann hefur aðeins komist 9 sinnum í gegnum niðurskurðinn á 70 mótum og síðast gerðist það í júlí. Það verður því spennandi að fylgjast með framhaldinu hjá honum í þessu móti.

Kevin Tway er í öðru sæti á 9 höggum undir pari og Jason Kokrak í þriðja sætinu á 8 höggum undir pari en hann náði ekki að ljúka við annan hringinn vegna myrkurs.

Brooks Koepka heldur áfram að vera í vandræðum en þessi frábæri kylfingur komst ekki í gegnum niðurskurðinn annað mótið í röð og hefur alls ekki náð sér á strik undanfarið.

Staðan í mótinu