Fréttir

Ragnhildur og Haraldur kylfingar ársins
Ragnhildur og Haraldur eru kylfingar ársins. Mynd/golf.is
Miðvikudagur 27. desember 2023 kl. 16:19

Ragnhildur og Haraldur kylfingar ársins

Ragnhildur Kristinsdóttir og Haraldur Franklín Magnús eru kylfingar ársins en Golfsamband Íslands stendur að valinu. Þau eru bæði úr Golfklúbbi Reykjavíkur. Þetta er í 26. skipti þar sem tveir einstaklingar eru valdir sem kylfingar ársins hjá GSÍ, kona og karl. Þetta er í fyrsta sinn sem Ragnhildur fær þessa viðurkenningu og í fjórða sinn sem Haraldur Franklín er kylfingur ársins. Þetta kemur fram á golf.is.

Árið 1973 var fyrsta kjörið hjá GSÍ á kylfingi ársins en frá árinu 1998 hefur karl og kona verið valin sem kylfingar ársins. Birgir Leifur Hafþórsson hefur oftast verið kjörinn kylfingur ársins í karlaflokki eða alls 11 sinnum. Ólafía Þórunn Kristinsdóttir er sú sem oftast hefur fengið þessa viðurkenningu hjá konunum eða alls sex sinnum.

Ragnhildur lék á sínu fyrsta ári sem atvinnukylfingur á LET Access mótaröðinni í Evrópu. Hún lék á 12 mótum á mótaröðinni og náði best 22. sæti í móti í júlí.

Ragnhildur varð Íslandsmeistari í höggleik í fyrsta sinn á Urriðavelli í ágúst.

Hún tók þátt í úrtökumóti í fyrir Evrópumótaröðina í Marokkó í desember og komst á lokastig mótsins.

Haraldur Franklín lék á 13 mótum á Áskorendamótaröðinni í ár. Hann komst 9 sinnum í gegnum niðurskurðinn og náði best 19. sæti í móti í júní.

Haraldur Franklín komst í fyrsta sinn á lokastig úrtökumótsins fyrir Evrópumótaröðina í nóvember og tryggði sér þar takmarkaðan þátttökurétt á Evrópumótaröðinni á næsta tímabili ásamt fullum þátttökurétti á Áskorendamótaröðinni.

Haraldur lék nýverið í tveimur mótum á Evrópumótaröðínni í Ástralíu og lenti til að mynda í 33. sæti í fyrra mótinu.

Á golf.is kemur fram hverjir hafa hlotið þessa nafnbót frá upphafi.