Fréttir

Af hverju hefur Tiger alltaf klæðst rauðu á lokadegi?
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
fimmtudaginn 2. maí 2024 kl. 14:37

Af hverju hefur Tiger alltaf klæðst rauðu á lokadegi?

Af hverju hefur Tiger Woods alltaf klæðst rauðum bol á lokadegi móta og hvað með nýja merkið í fatalínu kappans sem hann opinberaði nýlega? Kappinn mætti brosandi í sjónvarpsviðtal nýlega og svaraði þessum spurningum og fleirum.

Tiger sagði í skemmtilegu sjónvarpsviðtali við USA Today nýlega að á unglingsárum hafi honum gengið betur í keppnum þegar hann var í rauðum efri parti. Mamma hans vakti athygli hans á því og vildi að hann myndi alltaf vera í rauðum bol. „Það gekk auðvitað ekki því ég var að keppa flesta daga og því ekki alltaf hægt að vera í rauðu. Við sættust um að ég yrði alltaf í rauðu á lokadegi móta og það hefur verið þannig alla tíð. Þetta var mamma sem átti þessa hugmynd,“ sagði Tiger og úrskýrði síðan hvernig merki nýju fatalínunnar væri til komið.

Jú, það er auðvitað tígur en útlínurnar eða rendurnar í teikningunni eru 15 sem vísa til fjölda risamóta sem hann hefur unnið. En hvað ef hann bætir við titlum, spurði sjónvarpsmaðurinn Tiger. Þá bætum við bara við rendum, sagði Tiger sem klæddist fatnaði frá NIKE í tuttugu og sjö ár.

Tiger sagði aðspurður um Scottie Scheffler, besta kylfing heims um þessar mundir og hann svaraði því til að kylfusláttur hans væri magnaður. Það færi bara eftir því hvernig honum gengi að pútta, hvort hann ynni, sem hann gerði oft, væri í toppbaráttunni eða við hana.

Þá var Tiger spurður út í börnin sín og föður en líka hvað hann hefði gert ef hann hefði ekki orðið kylfingur? „Ég hefði farið í herþjónustu, hefði þjónað,“ sagði besti kylfingur sögunnar að flestra mati.