Fréttir

Ræst út viðstöðulaust í 24 tíma
Kiðjabergið er einn fallegasti og magnaðasti golfvöllur landsins.
Mánudagur 27. júní 2022 kl. 20:17

Ræst út viðstöðulaust í 24 tíma

Skráning er nú í fullum gangi á Gull 24 Open, einn magnaðasta golfviðburð ársins, þar sem ræst er út viðstöðulaust í 24 tíma, eða í einn sólarhring. Byrjað verður að ræsa út keppendur kl. 14:00 föstudaginn 1. júlí og ræst út til kl. 13:50 laugardaginn 2. júlí. Í fyrra mættu 404 keppendur til leiks og er fjölmennasta golfmót, sem haldið hefur verið á Íslandi og þó víðar væri leitað. Spáð er hæglætis veðri á Kiðjabergsvelli um helgina.

„Við héldum þetta sólarhrings mót í fyrsta sinn í fyrra og var það um leið fjölmennasta golfmót Íslandssögunnar. Aldrei áður hafa svo margir keppendur mætt í mót á sama 18 holu vellinum á einum sólarhring. Markmið okkar í þessu móti er að búa til skemmtilega upplifun fyrir mótsgesti þar sem við leggjum einnig áherslu góðan leikhraða,“ segir Birkir Már Birgisson, framkvæmdastjóri GKB.

 „Það er fátt sem jafnast á við að leika golf á þessum árstíma þegar dagsbirtu nýtur allan sólarhringinn. Kiðjabergsvöllur er að margra mati með eitt fallegasta vallarstæði landsins. Við hvetjum kylfinga til að koma og upplifa þennan einstæða golfviðburð,” segir Birkir Már.

Leikfyrirkomulag mótsins er einstaklings punktakeppni með forgjöf. Hámarksforgjöf hjá körlum er 24 og 28 hjá konum. Í aðalverðlaun eru 5 ferðavinningar frá Icelandair og einnig eru veitt glæsileg nándarverðlaun á öllum par-3 holum vallarins að verðmæti 80.000 kr. Fjölbreyttir aukavinningar frá fyrirtækjum á borð við Ölgerðinni, Nespresso, Húsasmiðjunni og Garra.

Golfskálinn verður opinn alla sólarhringinn og er lofað góðri stemmningu. Þeir sem ekki hafa spilað miðnæturgolf ættu að nota tækifærið og prófa og taka um leið þátt í að setja „heimsmet”.

Skráning fer fram á golf.is og ef fólk vill skrá hópa er hægt að hafa samband beint við Golfklúbb Kiðjabergs með því að senda póst á [email protected]. Hægt er að koma um 480 keppendum í mótið ef allir rástímar verða nýttir.

Nánari upplýsingar eru á www.gkb.is