Fréttir

LIV leikmenn fá ekki að taka þátt í WGC-Dell holukeppninni
Þriðjudagur 21. mars 2023 kl. 09:28

LIV leikmenn fá ekki að taka þátt í WGC-Dell holukeppninni

LIV leikmenn fá ekki að keppa í WGC-Dell  holukeppninni sem fer fram um helgina í Austin á PGA mótaröðinni.

Mótið er haldið af samtökum allra PGA mótaraðanna og því var útlit fyrir að þeir leikmenn á LIV mótaröðinni sem hafa nógu góða stöðu á heimslistanum myndu mæta til leiks. PGA mótaröðin hefur hinsvegar sýnt vald sitt og sem gestgjafar mótsins hafa þeir ákveðið að allir kylfingar sem leikið hafa á mótaröð á árinu sem ekki hefur þeirra blessun séu útilokaðir frá WGC-Dell holukeppninni. Patrick Reed og nokkrir aðrir leikmenn sem leika á LIV mótaröðinni höfðu óskað eftir þátttöku en fengu allir neitun.

Mótið hefst á morgun á Austin Country Club í Texas í Bandaríkjunum. Scottie Scheffler sigurvegari mótsins í fyrra hefur titilvörn sína gegn landa sínum Davis Riley. Hann er 26 ára og hefur leikið í 55 mótum á PGA mótaröðinni. Hann hefur aldrei sigrað, einu sinni náð öðru sæti og sjö sinnum verið í topp 10. Ljóst er að erfiður leikur bíður hans gegn Scottie Scheffler en allt getur gerst í holukeppni og úrslitin oft óvænt.

Sjá leikina í fyrstu umferð hér