Fréttir

Hverjar eru léttustu og erfiðustu holurnar á Íslandi?
Nýleg drónamynd af Bergvíkinni í Leiru sem er erfiðasta par 3 braut landsins. Mynd/RóbertSigurðsson.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
miðvikudaginn 10. júlí 2024 kl. 15:41

Hverjar eru léttustu og erfiðustu holurnar á Íslandi?

Þrjár erfiðustu golfbrautir landsins (par-3, par 4 og par 5) eru 3. brautin í Leiru, Bergvík, 2. brautin á Kiðjabergsvelli og 15. braut á Grafarholtsvelli. Þetta kemur fram í ítarlegri greiningu á tölfræði keppenda í fyrri Íslandsmótum í golfi, frá árinu 2011, sem nú hefur verið sett saman í aðgengilegt mælaborð af KPMG. Verkefnið er kynnt nú í aðdraganda að Íslandsmótinu í golfi sem fram fer dagana 18.-21. júlí.

Ráðgjafar KPMG hafa greint fyrirliggjandi gögn um Íslandsmót GSÍ allt frá árinu 2001 og sett ýmsar áhugaverðar upplýsingar fram í mælaborði á vef KPMG. Um er að ræða mikið magn af gögnum sem sett eru fram með einföldum hætti og veita því innsýn í fjölmarga þætti í leik kylfinga í gegnum tíðina. Þar má nefna hvaða holur hafa reynst erfiðastar á Íslandsmótum fyrri ára, hvaða keppendur hafa náð besta skori að meðaltali, ásamt ýmsum öðrum fróðleik.

KPMG mun einnig stilla upp tölfræði í útsendingu sjónvarpsins frá Íslandsmótinu sem framundan er. Það verður lögð áhersla á að draga fram áhugaverða tölfræðiþætti sem tengjast sterkustu kylfingum landsins og einnig tölfræði frá Íslandsmótinu sem fram fór síðast á Hólmsvelli í Leiru árið 2011.

Í upplýsingum úr mælaborði KPMG kemur fram að auðveldustu par 3, 4 og par 5 brautir úr Íslandsmótum okkar bestu kylfinga eru 6. hola á Korpúlfsstaðavelli, auðveldasta par 4 brautin er tíunda hola á Strandarvelli á Hellu og 4. brautin í Grafarholti er auðveldasta par 5 brautin.

15. brautin í Grafarholtinu.

Önnur brautin í Kiðjabergi.