Fréttir

Hulda Clara og Ragnhildur leika í svæðiskeppni NCAA
Hulda Clara Gestsdóttir og Ragnhildur Kristinsdóttir
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
þriðjudaginn 10. maí 2022 kl. 10:26

Hulda Clara og Ragnhildur leika í svæðiskeppni NCAA

Hulda Clara Gestsdóttir, GKG og Ragnhildur Kristinsdóttir, GR, leika um þessar mundir í svæðiskeppninni (e. Regionals) í NCAA háskólagolfinu.

Ragnhildur kom í hús á 75 höggum eða á 4 höggum yfir pari eftir fyrsta hring á NCAA Ann Arbor Regional en leikið er á U-M vellinum í Ann Arbor í Michigan. Hún er sem stendur í 32.-37. sæti.

Ragnhildur, sem var valinn til að leika í einstaklingskeppni mótsins þrátt fyrir að skólalið hennar í Eastern Kentucky háskólanum, hafi ekki komist áfram í svæðiskeppnina, fékk þrjá fugla og sjö skolla á hringnum.

Staðan í einstaklingskeppninni

Ragnhildur verður ræst út á annan hring frá 10. teig laust fyrir klukkan eitt í dag á íslenskum tíma.

Skorkort Ragnhildar

Hulda Clara kom í hús á 80 höggum eða á 8 höggum yfir pari eftir fyrsta hring NCAA Tallahassee Regional en leikið er á Seminole Legacy vellinum í Tallahassee í Flórída. Hún er sem stendur í 58. sæti.

Hulda Clara, sem komst með skólaliði sínu í Denver háskólanum áfram í svæðiskeppnina, fékk tvo fugla og 10 skolla á hringnum.

Staðan í einstaklingskeppninni

Hulda Clara verður ræst út á annan hring frá 1. teig upp úr klukkan eitt í dag á íslenskum tíma.

Skorkort Huldu Clöru

Lið Denver háskólans situr í 12. sæti liðakeppninnar eftir fyrsta hring.

Staðan í liðakeppninni

Fyrirkomulagið í háskólagolfinu er með þeim hætti að eftir að deildarkeppni lýkur í apríl hefst úrslitakeppnin með svæðiskeppnunum. Fimm efstu skólarnir í karlaflokki og fjórir efstu skólarnir í kvennaflokki úr hverri svæðiskeppni tryggja sér þátttökurétt í landskeppninni (e. National Championship) sem fram fer í lok maí byrjun júní.

Tveir einstaklingskylfingar úr hverju svæðismóti vinna sér jafnframt inn þátttökurétt í Landskeppnina.

Meðal þekktra kylfinga sem sigrað hafa landskeppnina eru þeir Tiger Woods og Phil Mickelson og þær Pat Hurst og Annika Sörenstam.

Landsliðskylfingarnir Hulda Clara Gestsdóttir og Ragnhildur Kristinsdóttir