Fréttir

Haraldur Franklín úr leik í Þýskalandi
Haraldur Franklín Magnús. Ljósmynd: golfsupport.nl/Heinrich Helmbold
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
laugardaginn 23. júlí 2022 kl. 08:10

Haraldur Franklín úr leik í Þýskalandi

Haraldur Franklín Magnús úr GR hefur lokið leik á Big Green Egg German Challenge á Áskorendamótaröðinni. Haraldur Fraklín, sem lék á pari á fyrsta hring, kom í hús á 75 höggum eða á 3 höggum yfir pari Wittelsbacher vallarins á öðrum hringnum. Hann lék samtals á 3 höggum yfir pari, hafnaði í 114.-119. sæti og var fimm höggum frá því að komast í gegnum niðurskurðinn.

Okkar maður fékk fugl snemma á öðrum hring en í kjölfarið tapaði hann 5 höggum á næstu 4 holum. Hann fékk fugla og skolla til skiptis út hringinn og komst ekki á nægilegt flug til að rétta sinn hlut.

Pólverjinn, Mateusz Gradecki og Spánverjarnir, Manuel Elvira og Alejandro Del Rey deila forystunni á 10 höggum undir pari fyrir þriðja hring, einu höggi á undan Tadeáš Tetak frá Slóvakíu.

Haraldur tók einn okkar manna þátt í mótinu en þeir Bjarki Pétursson og Andri Þór Björnsson voru á biðlista fyrir mót en komust ekki inn. Guðmundur Ágúst Kristjánsson sat hjá að þessu sinni.

Staðan á mótinu