Hola í höggi og albatross hjá Degi
„Þetta var magnað og ógleymanlegt,“ segir Dagur Ebeneserson, kylfingur í Golfklúbbi Mosfellsbæjar sem gerði sér lítið fyrir og fór holu í höggi á 10. holu sem er par 4 braut á Hlíðavelli á fyrsta keppnisdegi í meistaramóti klúbbsins í vikunni.
Dagur er enginn aukvisi í íþróttinni, fyrrverandi afreks- og lágforgjafarkylfingur en engu að síður er það fágætt að ná draumahöggi og albatros á par 4 holu.
Tíunda brautin er skemmtileg en „stutt“ par 4 braut, 281 metri frá aftasta teig. Vatnstorfæra sker brautina og hærri forgjafarkylfingar slá upphafshöggið að henni. Dagur reif hins vegar upp stóra prikið, „dræverinn“ eða ásinn, og sló flott högg, fékk smá hægri sveigju. Boltin lenti skammt frá flöt og fékk eitt skopp áður en hann lenti inn á flöt og rúllaði svo ofan í holu.
Dagur segir að hann og fjöldi fólks sem fylgdist með högginu hafi ekki verið viss hvort boltinn hafi endað í holunni en kappinn hljóp síðasta spölinn að flötinni og kíkti svo ofan í holuna - þar lá boltinn og bros færðist yfir andlit kylfingsins.
Þetta er ekki bara hola í höggi heldur líka svokallaður albatross en það er þegar maður fer holu á þremur undir pari sem er mjög sjaldgæft á par 4 holu.
Dagur hefur tvisvar áður farið holu í höggi en þetta er í fyrsta skipti sem hann nær albatrossi.