Fréttir

Haraldur Franklín íþróttakarl Reykjavíkur
Laugardagur 16. desember 2023 kl. 12:04

Haraldur Franklín íþróttakarl Reykjavíkur

Haraldur Franklín Magnús, atvinnukylfingur úr Golfklúbbi Reykjavíkur var kjörinn Íþróttamaður Reykjavíkur.

Í umsögn ÍBR segir: „Haraldur Franklín Magnús átti frábært ár en hann lék á 13 mótum á Áskorendamótaröð Evrópu. Meðal annarra afreka á árinu hjá Haraldi má telja upp að hann tók þátt í lokaúrtökumóti fyrir The Open, komst í lokaúrtökumót fyrir Evrópumótaröðina, lék á tveimur mótum DP World Tour, endaði í 127. sæti á Áskorendamótaröðinni og vann sér inn þátttökurétt á Áskorendamótaröðinni á næsta ári. Þess má einnig geta að Haraldur Franklín er ennþá eini íslenski karlkylfingurinn sem leikið hefur á risamóti, en hann lék á Opna breska meistaramótinu í júlí 2018.“

Haraldur lék á árinu á Áskorendamótaröð Evrópu og fór síðan á úrtökumót og freistaði þess að komast á DP mótaröðina. Hann komst í lokamótið og endaði í 66. sæti. Árangur hans tryggði honum fullan þátttökurétt á Áskorendamótaröðinni og einnig þátttökurétt á nokkrum mótum á DP og lék á tveimur mótum á DP mótaröðinni í byrjun desember og komst í gegnum niðurskurðinn á öðru þeirra.