Eitt besta sumar í langan tíma hjá Golfklúbbi Akureyrar
Jaðarsvöllur kom mjög vel undan vetri. Klúbburinn stefnir í 1000 meðlimi. Von er á nýrri aðstöðu.
Golfklúbbur Akureyrar (GA) er með elstu og rótgrónustu golfklúbbum landsins, stofnaður 19. ágúst árið 1935 og í dag leika Akureyringar á Jaðarsvelli. Íslandsmótið hefur margoft verið haldið á Akureyri, síðast árið 2021 og nokkur mót GA eiga sér áratuga sögu og sum þeirra laða að sér fjölda erlendra kylfinga. Sumarið hefur verið mjög gott hjá Akureyringum og uppbygging á inniaðstöðu er framundan.
Steindór Kr. Ragnarsson hefur gegnt stöðu framkvæmda- og vallarstjóra GA síðan 2017. „Þetta sumar er líklega með þeim bestu í langan tíma hjá okkur hér á Akureyri. Völlurinn kom mjög vel undan vetri sem var ekki svo þungur og við fengum mjög gott veður í maí og júní þegar golfarar fyrir sunnan sáu varla til sólar. Það hefur verið mjög mikil aukning í spiluðum hringjum í sumar og talsverð aukning var í klúbbnum, við stefnum hraðbyri að eitt þúsund meðlimum. Við opnuðum völlinn um svipað leyti og venjulega, um miðjan maí en völlurinn var í miklu betra standi en oft áður eftir veturinn. Oft höfum við þurft að glíma við vetrarskaða á flötum en því var ekki að skipta núna. Eins og ég sagði, veturinn var ekki eins þungur og oft áður og svo höfum við verið að þróa ákveðna vetrarvinnu, fylgjumst vel með þegar frýs á flötunum hjá okkur, hvenær myndast klaki á þeim og um leið og færi gefst, hreinsum við flatirnar.
Aðstaða klúbbsins hefur tekið stakkaskiptum á undanförnum árum, frábær æfingaaðstaða þar sem er aðstaða fyrir klúbbmeðlimi til að geyma settin sín en margir koma gangandi eða hjólandi á golfvöllinn og spila. Búið er að samþykkja uppbyggingu á inniaðstöðu við skálann á Jaðarsvelli en hingað til höfum við haft aðstöðu til inniæfinga í íþróttahöllinni sem er við sundlaugina, höfum verið með tvo herma og púttaðstöðu en nýja aðstaðan verður frábær, því þori ég að lofa. Skrifað verður undir samning á næstunni og þá munum við kynna teikningar. Framkvæmdir hefjast fljótlega og vonandi munum við geta opnað þessa nýju aðstöðu eftir u.þ.b. eitt og hálft ár.“
Akureyringar státa sig af nokkrum mótum sem eiga árlegan sess hjá golfurum og nær hefð sumra móta tæp fjörutíu ár aftur í tímann. „Við erum með nokkur mót sem eru fyrir löngu búin að festa sig í sessi hjá golfurum og er nánast orðið uppselt í mótið ári síðar, stuttu eftir að búið er að reka niður lokapúttið og skrifa undir skorkortið. Tvö elstu mótin okkar stefna í hálfrar aldar afmælið, Höldur open og Arctic open. Höldur open er mjög skemmtilegt liðamót þar sem spilað er tvo daga í betri bolta. Þetta mót er alltaf haldið í ágúst og tókst einstaklega vel að þessu sinni, við fengum frábært veður báða dagana. Flaggskip mótanna okkar er og verður sjálfsagt alltaf, hið alþjóðlega Arctic open mót sem er haldið í kringum lengsta dag ársins, 21. júní. Það mót dregur alltaf að sér fjölda erlendra golfara og hefur verið uppselt í það frá upphafi held ég. Leiknar eru 36 holur yfir tvo daga, fimmtudag og föstudag og svo endum við á glæsilegu lokahófi á laugardeginum. Við erum að ræsa út frá hádegi til ellefu báða daga og síðustu golfararnir eru að koma inn í skála um fjögurleytið á nóttunni, það er mjög sérstakt og skemmtilegt. Það er alltaf slegist um að komast í þetta mót.
Varðandi framtíð GA, við munum halda áfram að vaxa og dafna. Golfið er alltaf að verða vinsælla og vinsælla, gaman að sjá hve konum hefur fjölgað mikið og það er nú eitt mótanna hjá okkur, hjóna- og paramótið en það mót er orðið fimmtán ára gamalt og er mjög vinsælt. Ég hlakka til að halda áfram að byggja golfíþróttina upp hér á Akueyri,“ sagði Steindór að lokum.