Fréttir

Einn skrýtnasti kylfingur sem sögur fara af
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 20. september 2024 kl. 11:22

Einn skrýtnasti kylfingur sem sögur fara af

„Það getur ekki verið, ég er með 36 í forgjöf,“ sagði kylfingurinn Jón Gauti Dagbjartsson þegar Biggi vinur hans sagði honum að Gauti hefði farið holu í höggi 6. október 2006. Sólin var lágt á lofti þennan dag svo hún byrgði sýn svo það var ekki hægt að segja fyrir víst að draumahöggið hefði komið en það var staðreynd.
Án þess að rannsókn eða tilraun hafi verið gerð, þá má leiða líkur að því að Jón Gauti sé með furðulegri kylfingum sem ganga lausir. Þennan dag, 6. október 2006, var kappinn að spila í samræmi við forgjöfina sem hann var með á þeim tíma, 36 (var full forgjöf þá) en frá og með níundu holu óx honum ásmegin og þegar draumahöggið kom á 13. holu spilaði Gauti eins og hann væri með + forgjöf! Hann talar oft og iðulega um að fara á leiðréttingarnámskeið til Helga Dan Steinssonar, framkvæmdastjóra og kennara í Golfklúbbi Grindavíkur, Helgi vill meina að hann sé meira með Jón Gauta í liðveislu.
Jón Gauti eftir sigur í golfmóti körfuknattleiksdeildar UMFG en hann er einn dyggasti stuðningsmaður liðsins.

Hvenær byrjaðir þú í golfi og hvernig gerðist það?

Byrjaði 2002 og eiginlega vegna þess að mig vantaði eitthvað áhugamál í viðbót við annað á meðan að ég var ekki á sjó, auk þess sem að vinirnir voru í þessu og mér sýndist alltaf vera voðalega eitthvað glatt á hjalla hjá þeim. Þannig að ég fékk gamalt sett hjá yngsta bróður mínum og fór út á völl án þess að fá kennslu...það voru mikil mistök.

Helstu afrek í golfinu?

Að hafa farið holu í höggi en fyrst og fremst að vera ekki hættur eftir mikla og afar erfiða þrautargöngu í mörg langdregin ár.

Hvað er það neyðarlegasta sem þú hefur lent í á golfvellinum?

Veit ekki alveg....ætli það sé ekki bara að hafa alltaf kennt völlunum sem ég hef spilað um slæsin... hálf neyðarlegt að þurfa taka það á sig sjálfan.

Hver er „frægasti“ kylfingurinn sem þú hefur leikið með?

Það er sennilega Helgi Dan og svo spilaði ég einu sinni með einum þó nokkuð frægum Íslendingi en man ekki hvað hann heitir.

Ertu hjátrúarfull/ur hvað varðar golf? 

Ne-hei...Ég er búinn að fara í gegnum eitthvað svoleiðis bull og telja mér trú um að þetta og hitt skipti máli fyrir hring, á miðjum hring og þannig. Ég er bara búinn að komast að því að ég er u.þ.b. þrír leikmenn og ég veit aldrei hver þeirra byrjar eða endar á hverjum hring. Ég á minn uppáhalds af þessum þremur en fulloft koma þeir allir við sögu.

Hefurðu farið holu í höggi? Ef já, lýstu augnablikinu. Ef ekki, hvað er það næsta sem þú hefur komist?

já ég hef upplifað það á gömlu þrettándu á Húsatóftarvelli í Grindavík en hún var par 3. Það gerðist frekar senmma á ferlinum, ég var royal með 36 í forgjöf og mörg X á hringnum. Komið fram á haust og ég var með Bigga vini mínum og Sibba litla bró, sólin í augun og sjöan var vopnið. Höggið var svo sem bara fullkomið, hár bolti, lenti stutt frá holu og rann beint í. Það er búið að gera talsvert grín af mínum viðbrögðum því Biggi sagði að boltinn hefði farið í en ég sagði að það gæti bara ekki verið því ég væri með 36 í forgjöf. Ég hef verið nálægt þessu tvisvar eftir þetta og mun fara aftur holu í höggi þrátt fyrir erfiðan feril.

Hvað er það sem þú þarft mest að bæta í þínum golfleik?

Tja !! Til þess að ná mjög langt í þessu þarf ég sennilega að bæta allt og það verulega. En til þess að geta lækkað mig eitthvað meira í forgjöf þarf ég að öllum líkindum að bæta...allt? Eða bara að ná meiri stöðugleika í allt það góða sem ég geri og sleppa þessu slæma sem ég geri... allt það góða sem ég geri er í raun eins og allt það slæma sem ég geri...það örlar á þessu öllu.

Aldur: 

53

Klúbbur: 

Golfklúbbur Grindavíkur

Forgjöf: 

18.9

Uppáhaldsmatur: 

Lamb eftir öllum aðferðum.

Uppáhaldsdrykkur: 

Fer aðeins eftir stundinni....köld-blá mjólk... rautt... G/t og ýmislegt.

Uppáhaldskylfingur: 

John Daly

Þrír uppáhaldsgolfvellir: 

Húsatóftarvöllur, Ventura og Lo Romero

Þrjár uppáhaldsgolfbrautir á Íslandi: 

Þær þrjár holur sem ég spila vel þá stundina.

Erfiðasta golfholan: 

15 í Grindavík

Erfiðasta höggið:

Fer eftir hver af mér er að spila, stundum öll erfið en helst þó blessuð drævin.                           

Ég hlusta á: 

Allt en mest af þyngri tónlist.

Besta skor: 

84 högg

Besti kylfingurinn: 

Helgi Dan

Golfpokinn

Dræver: Ping

Brautartré: 5 tré Ping

Járn: Ping

Fleygjárn: Ping

Pútter: Adams

Hanski: Hirzl

Skór:  Adidas

Gauti með vinum sínum í golfferð á erlendri grundu, frá vinstri: Biggi, Gauti, Ingvar og Haukur.
Gauti er ekki bara öflugur að sveifla golfkylfu, hann sveiflar trommukjuða með Bítatribute-bandinu The BackstaBBing Beatles.
Fáir eru með eins mikla ástríðu fyrir körfuknattleiksliði UMFG eins og Jón Gauti