Örninn sumar 2024
Örninn sumar 2024

Viðtal

Húsafellsvöllur er falin perla á Vesturlandi
Húsafellsvöllur liggur í fallegu umhverfi meðfram Kaldá og Suttá
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
föstudaginn 1. júlí 2022 kl. 14:02

Húsafellsvöllur er falin perla á Vesturlandi

Jökullinn, birkiskógurinn og tignarlegur fjallahringurinn mynda einstakt umhverfi sem lætur engan ósnortinn

Golfklúbbur Húsafells var stofnaður árið 1996 og var því 25 ára á síðasta ári. Klúbburinn hafði verið í dvala í nokkur ár þegar hópur velunnara hans tók höndum saman með stjórnendum í Húsafelli við að endurvekja starfsemina.

Húsafellsvöllur er skemmtilegur níu holu völlur sem liggur fallega í jaðri sumarhúsasvæðisins. Sérkenni vallarins er að slegið er meðfram eða yfir vatn eða ár á flestum brautum en hann liggur meðfram Kaldá og Stuttá. Engar sandglompur eru á vellinum.

Örninn sumar 2024
Örninn sumar 2024

Bára Einarsdóttir, formaður og Helga Björnsdóttir, stjórnarmaður Golfklúbbs Húsafells settust niður með kylfingi.is á dögunum.

„Það hefur orðið mikil fjölgun í klúbbnum síðan ákveðið var að endurvekja starfsemina en félögum hefur fjölgað um rúm 200%. Félagar eru duglegir að taka þátt og t.a.m. var vel mætt á vinnudag í byrjun sumars þar sem félagar unnu vel og sköpuðu góða stemningu. Vinnudeginum var svo slitið með vel heppnaðri grillveislu,“ segir Bára.

„Einn þáttur endurreisnar klúbbsins snéri að ráðningu vallarstarfsmanns. Hann hefur frá ráðningu haft í nógu að snúast við endurbætur og lagfæringar og stendur sú vinna enn yfir. Skógurinn hefur verið grisjaður við teiga, þar sem tré hömluðu útsýni og aðkoma að brúm hefur verið lagfærð, svo eitthvað sé nefnt. Stefnt er á áframhaldandi uppbyggingu vallarins, s.s. uppbyggingu teiga, lagfæringu göngustíga og vinnu við flatir. Mun það vonandi skila sér í enn meiri ánægju kylfinga í framtíðinni,“ segir Helga.

„Við höfum uppfært staðarreglur og útbúið nýtt skorkort. Þá höfum við innleitt notkun á Golfbox og hvetjum kylfinga til að nýta rafræna skráningu. Það er þægilegra fyrir allt utanumhald og dregur úr pappírsnotkun,“ segir Bára.

Ræst út á Texas-móti á Húsafellsvelli

Góð umgengni og betri umgjörð

Þær stöllur segja umgengni á vellinum góða og alla umgjörð betri eftir þær breytingar sem hafa verið gerðar. Starfsfólk Afþreyingarmiðstöðvarinnar á Húsafelli sinnir þjónustu og eftirliti við völlinn. „Ef einhverjar spurningar vakna hjá fólki er best að hafa samband við Afþreyingarmiðstöðina,“ segir Bára. „Það má einnig minnast á það að við gerðum tilraun í febrúar á þessu ári og lögðum gönguskíðaspor á vellinum, sem mæltist vel fyrir. Við stefnum á að leggja slíkt spor framvegis þegar aðstæður leyfa og þjónusta þannig þann vaxandi hóp sem iðkar gönguskíði,“ segir Helga.

Hvað er framundan hjá GHF? Eru einhver mót á döfinni eða annað því um líkt?

„Það hafa mörg skemmtileg mót verið haldin á vellinum í gegnum tíðina og svo verður áfram. Við héldum fyrsta mótið í júní á síðasta ári eftir að hafa endurvakið starfsemi klúbbsins og annað um verslunarmannahelgina í fyrra. Þau tókust bæði frábærlega vel. Við settum á laggirnar mótanefnd á þessu ári. Einu móti er lokið og næsta verður haldið um verslunarmannahelgina, rétt eins og í fyrra. Góður rómur hefur verið gerður að mótunum og mikil ásókn í þau. Raunar hafa færri komist að en vildu,“ segir Bára.

Veitingavagninn á fullri ferð

Góð stemning á verslunarmannahelgarmóti

„Við stefnum jafnvel á að halda fleiri mót í sumar,“ bætir Helga við. Helga segir að sífellt fleiri hópar komi þá í Húsafell og haldi einkamót á vellinum. „Það er lítið mál að skipuleggja slík mót ef völlurinn er laus. Fólk dvelur þá ýmist á hótelinu, en á Húsafelli er glæsilegt 48 herbergja hótel, á tjaldsvæðinu, þar sem öll aðstaða er til fyrirmyndar eða gerir sér dagsferð. Aðstaðan í Húsafelli er kjörin fyrir hópa til að koma saman og eiga góðar stundir á golfvellinum og í annarri afþreyingu.“

Mikil náttúrufegurð

Húsafell er þekkt fyrir mikla náttúrufegurð þar sem jökullinn, birkiskógurinn og tignarlegur fjallahringurinn mynda einstakt umhverfi sem lætur engan ósnortinn. Margir nýta sér skipulagðar ferðir sem eru í boði í nágrenninu og hafa Giljaböðin notið sérstakra vinsælda að sögn þeirra Báru og Helgu. Einnig er hægt að bóka íshellaferðir á Langjökli og hraunhellaferðir í Víðgelmi svo eitthvað sé nefnt. Hægt er að njóta veitinga bæði á Húsafell Bistro og á sjálfu hótelinu.

Húsafell er hlýlegur griðastaður

„Hótelstarfsmenn hafa orðið varir við aukna ánægju gesta með frábært starf sem unnið hefur verið á golfvellinum. Þá hafa fastagestir haft á orði að völlurinn hafi sjaldan eða aldrei verið í betra ásigkomulagi. Við finnum fyrir aukinni ásókn enda er orðið fljótt að berast manna á milli. Þrátt fyrir aukna ásókn er nóg pláss á vellinum fyrir þá sem vilja spila yfir flesta daga sumarsins,“ segir Bára. Við hlökkum til að taka á móti kylfingum í Húsafelli í sumar – verið velkomin.

Bára Einarsdóttir, formaður og Helga Björnsdóttir, stjórnarmaður GHF