Kylfingur dagsins

Tapaði ástríðunni fyrir golfinu en fann hana aftur á öðrum forsendum
Fannar með sigurverðlaunin í Opna íslenska grænmetismótinu á Flúðum.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 17. maí 2024 kl. 07:00

Tapaði ástríðunni fyrir golfinu en fann hana aftur á öðrum forsendum

Kylfingur dagsins byrjaði ungur að spila golf og var farinn að keppa á meðal þeirra bestu en tapaði ástríðunni og snerti ekki kylfu í nokkur ár. Árið 2021 byrjaði hann svo aftur en á öðrum forsendum og í dag finnst honum fátt skemmtilegra en að spila golf. Samhliða því að byrja aftur að spila, fór hann að taka upp og senda út stutt myndbönd úr golfhringjum með félögum sínum. Hann hafði alltaf haft ástríðu fyrir að búa til myndbönd og gat þarna slegið tvær golfkúlur í einu höggi! Myndböndin eru í stöðugri þróun og eftir mikla hvatningu byrjaði hann svo með Instagram-síðu; Fannargolf. Á síðunni sýnir hann frá völlum vítt og breitt um landið, sýnir nýjar græjur og alls kyns annað tengt golfinu. Markmiðið er að taka golfið af krafti í sumar og ná að sýna frá öllum völlum landsins á næstu árum.
Fannar Jóhannsson er kylfingur dagsins.

Hvenær byrjaðir þú í golfi og hvernig gerðist það?

Pabbi fékk golfdelluna um aldamótin og ég fékk að elta hann í sportið. Námskeið urðu að æfingum og æfingar urðu að heilu dögunum sem maður eyddi á golfvellinum. 

Helstu afrek í golfinu?

Við strákarnir urðum Íslandsmeistarar golfklúbba 18 ára og yngri á Hellu sem er minning sem ég held sérstaklega upp á. Það var líka í síðasta skiptið sem ég keppti í golfi, flott að hætta á toppnum. 

Hvað er það neyðarlegasta sem þú hefur lent í á golfvellinum?

Kannski var þetta ekki neyðarlegt en í augnablikinu fannst mér þetta hrottalegt. Við vinirnir fórum saman til Abu Dhabi fyrir nokkrum árum, og fyrir tilviljun var Abu Dhabi Championship á sama tíma og við vorum úti. Við fórum og horfðum á æfingahringinn sem var mögnuð upplifun. Hinn almenni borgari var greinilega ekki jafn spenntur og við, þar sem svo gott sem enginn annar var á vellinum að horfa. Þetta skapaði greinilega þægilegt andrúmsloft fyrir kylfingana, þar sem við gátum bara labbað brautirnar með þeim og spjallað við þá flesta. Rory McIlroy, Henrik Stenson, Bryson DeChambeau, það voru allir þarna. Aron vinur minn sá fyrir sér upplagt tækifæri og tók myndir af sér með öllum kylfingunum sem við hittum. Þegar ég var að taka mynd af honum með Justin Rose brá mér þó heldur betur í brún þegar mjög stór maður hoppar á bakið á mér og öskrar. Alls kyns hlutir fóru í gegn um hausinn á mér, var þetta öryggisvörður að henda okkur af vellinum eða bara snarruglaður maður að ráðast á mig. Með hjartað í buxunum leit ég upp og sá engann annan en Dustin Johnson, sem var á þeim tíma besti golfari heims, grenja úr hlátri eftir að hafa náð að hrekkja mig. Ég var svo hissa eftir þessa atburðarás að ég held ég hafi ekki komið upp orði þegar ég reyndi að tala við hann.  

Hver er „frægasti“ kylfingurinn sem þú hefur leikið með? 

Gunnar Nelson, golfsjúklingur

Ertu hjátrúarfull/ur hvað varðar golf? 

Já, og alveg það mikið að ég skammast mín fyrir það. Ég get t.d. ekki púttað fyrr en ég er búinn að koma grínmerkinu fullkomlega fyrir á segulfestingunni sem ég er með í vasanum. Ef ég næ ekki góðri snertingu við grasið í æfingasveiflunni er ekki séns að ég slái gott högg. Meira ruglið.

Hvað er það sem þú þarft mest að bæta í þínum golfleik?

Halda mér við á veturna. Er eins og belja á svelli á vorin en spila eins og alvöru töffari á haustin. 

Aldur: 25

Klúbbur: Golfklúbbur Akureyrar

Forgjöf: 9,1

Uppáhaldsmatur: Naut og benni.

Uppáhaldsdrykkur: Erfitt að toppa gott rauðvín í góðu veðri.

Uppáhaldskylfingur: Rickie Fowler & Tiger Woods.

Þrír uppáhaldsgolfvellir: Jaðarinn, Grafarholtið og Kiðjaberg

Þrjár uppáhaldsgolfbrautir á Íslandi: Tólfta holan á Korpunni (þriðja á ánni), sjöunda á Dalvík og sjötta holan á Sigló.

Erfiðasta golfholan: Fimmtánda holan á Kiðjabergi var ekki búin til fyrir slæsara eins og mig. Held ég hafi aldrei spilað hana á undir 7 höggum. 

Erfiðasta höggið: Vipp úr slæmri legu. Vipp úr góðri legu reynast mér reyndar líka erfið.                            

Ég hlusta á: Hlusta mikið á íslenskt. Kef Lavík hefur verið í uppáhaldi í mörg ár.

Besta skor: 68(-3) á Jaðri og 69(-3) á Korpunni.

Besti kylfingurinn: Tigerinn, og það er ekki tæpt.

Golfpokinn

Dræver: Cobra FlyZ, 9 gráður

Brautartré: Rocketballz 3 tré, nánast ónotað síðan 2012

Járn: 3-járn: Srixon ZX II, 4-P: Titleist T100

Fleygjárn: Titleist Vokey SM9 Jet Black 50, 54, 58 gráður

Pútter: Scotty Cameron Futura 6M

Hanski: Almennt fæ ég hanska í teiggjöf og nota þar til hann týnist. Á orðið góðan lager.

Skór: Nike Air Zoom Infinity Tour

Fannar með föður sínum, Jóhanni Heiðari Jónssyni.

Fannar og kærastan, Rebekka Garðarsdóttir.

Fannar og Rebekka ásamt nýfæddum syni sínum, Styrmi Ríó.