Afmælisgjöfin ekki skópar heldur gjafabréf að golfsetti
Björg Ýr Guðmundsdóttir er fædd og uppalin í Reykjavík en fluttist til Akureyrar árið 2007, dvölin átti að vara í tvö ár en fjölskyldan hefur ílengst og getur ekki hugsað sér að búa neins staðar annars staðar í dag. Björg byrjaði seint í golfi og hefði viljað byrja fyrr.
Björg Ýr er kylfingur dagsins.
Hvenær byrjaðir þú í golfi og hvernig gerðist það?
Ég byrjaði í golfi vorið 2016, hafði þá sagt í einhver ár að ég ætlaði að byrja í golfi þegar ég yrði „gömul“ og svo kom að því að eiginmaðurinn gaf mér golfnámskeið í afmælisgjöf þegar ég var 44 ára. Það voru blendnar tilfinningar þennan dag og ekki hjálpaði að gjafabréfinu var pakkað inn í skókassa, ég hélt auðvitað að ég væri að fá einhverja geggjaða skó í afmælisgjöf. En í dag lít ég á þetta sem bestu afmælisgjöf sem ég hef fengið, við hjónin fórum saman á byrjendanámskeið hjá Stulla og eftir það var ekki aftur snúið, við kolféllum fyrir þessu frábæra sporti og erum búin að kynnast svo frábæru fólki og eignast góða vini á golfvellinum. Eftir að við byrjuðum í golfi erum við búin að fara víða og spila golf, erlendis og hérlendis. Það toppar fátt að vera í góðum hópi og spila golf og hafa gaman og ekki verra ef það eru nokkrar keppnir í gangi. Mér finnst mjög gaman að keppa í golfi og er dugleg að taka þátt í allskonar mótum, við hjónin erum til dæmis búin að taka þátt í 8 mótum á sl 6 vikum, þetta er auðvitað bilun en bara svo sjúklega gaman.
Helstu afrek í golfinu?
Akureyrameistari 3. fl. kvenna 2020 og í 2. fl. kvenna 2022. Og að hafa komið tvíburasystur minni í golfið sumarið 2020, það tók mig 3 ár.
Hvað er það neyðarlegasta sem þú hefur lent í á golfvellinum?
Þegar upphafshöggið mitt á 18. holu á Jaðarsvelli fór í bunkerinn á 9. holu. Þetta var á lokadeginum í meistaramótinu 2021 og fullur pallur af fólki að fylgjast með, höggið úr bönkernum tókst sem betur fer vel en þetta tók á taugarnar.
Hver er „frægasti“ kylfingurinn sem þú hefur leikið með?
Bróðir minn Eiríkur Guðmundsson, hann er mitt idol í golfinu.
Ertu hjátrúarfull/ur hvað varðar golf?
Nei alls ekki.
Hvað er það sem þú þarft mest að bæta í þínum golfleik?
Sandgryfjuhögginn, þau hafa oft farið illa með skorið.
Aldur: 51
Klúbbur: Golfklúbbur Akureyrar
Forgjöf: 21,4
Uppáhaldsmatur: Indverskur matur og grillaður lax
Uppáhaldsdrykkur: Vatn og rauðvín
Uppáhaldskylfingur: Justin Thomas, hann er svo mikill keppnismaður og Andrea Líf Líndal systurdóttir mín, væri svo til í að hafa hennar sveiflu.
Þrír uppáhaldsgolfvellir: Jaðarsvöllur, Grafarholtið og La Penina í Portúgal.
Þrjár uppáhaldsgolfbrautir á Íslandi: 7. og 17. á Jaðarsvelli og 6. í Stykkishólmi
Erfiðasta golfholan: 9. holan á Jaðarsvelli
Erfiðasta höggið: Annað höggið á fyrstu holunni á Jaðarsvelli, hættur alls staðar.
Ég hlusta á: Tónlist er það Sting og allt sem hefur svona „feel good“ áhrif, útvarp er það Bylgjan og Rás 1.
Besta skor: 86. högg á Öndverðanesvelli (46 pkt)
Besti kylfingurinn: Rory McIlroy
Golfpokinn
Dræver: Ping GLe2
Brautartré: Ping Gle 3 tré 19° og Ping Gle hybrid 6 og 4
Járn: Ping GLE 2 S-7
Fleygjárn: Ping Glide 58°
Pútter: Ping GLE 2 Anser
Hanski: FJ
Skór: Ecco