Kylfukast

Margfeldi fríkorta
Sunnudagur 15. nóvember 2009 kl. 12:26

Margfeldi fríkorta

Nú líður að Golfþingi og í síðstu viku voru birtar hinar ýmsu reglugerðarbreytingar sem lagðar hafa verið fyrir þingið. Meðal þess sem þar er að finna er tillaga frá Golfklúbbnum Oddi um að skipuð verði nefnd til að fara yfir fyrirkomulag fríkorta, þar sem þar á bæ er mönnum nóg boðið vegna notkunar slíkra korta á Urriðavelli.

Til að fara aðeins yfir söguna, þá var samþykkt á Golfþingi árið 1994 að gefa út fríkort (svokölluð GSÍ kort) til allra stjórnarmanna í klúbbum innan sambandsins og til aðila sem hreyfingin taldi mikilvæga fyrir framgang íþróttarinnar.  Vegur GSÍ kortsins hefur vaxið nokkuð frá aldamótum enda er það ekki launungarmál að kortið hefur verið notað töluvert við markaðssetningu Golfsambandsins og útgefin kort undanfarin ár hafa verið öðru hvoru megin við 1.000.  Fyrir fjórum árum síðan var samþykkt að fækka hringjum sem kortið veitti handhöfum úr 5 niður í 3. Sagan er þar með ekki öll sögð, því réttara er að segja úr 10 niður í 6, þar sem kortið gildir einnig fyrir maka handhafa þegar slíkur er með í för.

Svo að allir geri sér grein fyrir umfanginu er rétt að setja upp eftirfarandi margfeldistöflu.  Hvert útgefið kort veitir rétt til 6 hringja á hverjum golfvelli á Íslandi. Vellirnir eru alls 60 talsins.  Það gera 360 hringi.  Útgefin kort eru alls 1.000 og því er alls um að ræða 360.000 útgefna hringi á GSÍ kortum.  Ef allir korthafar myndu einsetja sér það markmið að fullnýta kortin sín, þyrfti til að standa undir umferðinni væri það sambærilegt við að fylla tólf 18 holu golfvelli, sem allir þyrftu að taka við 30.000 hringjum á ári, sem er sambærilegt við okkar þéttsetnustu velli.  Umferðin dreifðist að vísu á 60 velli, en hver þeirra þyrfti að taka við 6.000 hringjum, eða svona um það bil 60 manns á dag.

Til að setja málið upp í enn frekar í samhengi, þá eru félagsmenn innan vébanda GSÍ 15.000 talsins. Fríkorthafar eru 1.000. Segjum að þeir eigi allir maka. Því njóta 2.000 manns þessara forréttinda, eða alls um 13,34% félagsmanna.  Ef svo er miðað við að meðaltals vallargjald sé krónur 2.000 fyrir hvern leikinn hring þá mun velta kortanna verða samtals 720.000.000 (lesist sjöhundruðogtuttugumilljónir), en það er sambærileg fjárhæð við öll greidd félagsgjöld til golfklúbba á Íslandi á ári hverju.

Notkunin á kortunum er þó fjarri lagi að vera einhvers staðar nálægt þessum tölum. Heildarnotkunin er kannski nær því að vera 2-3 hringir á kort. En það breytir þó ekki því að fjarlægur möguleikinn er til staðar. Nú þegar stærstu klúbbar landsins t.a.m. Oddur ná vart að anna eftirspurn eigin félaga sem greiða hæsta árgjald landsins, af hverju ættu þeir þá að heimila fríspil á sínum velli?  Það er rétt að fram komi að undirritaður er handhafi GSÍ korts. Hvort kortið eigi rétt á sér þá liggja þar bæði rök með og á móti. Engin ástæða er til að maki korthafa njóti fríðindanna sömuleiðis.  En umfram allt ef kortin eiga að vera til þarf að liggja að baki hverjum leiknum hring á GSÍ korti fjárhæð sem útgefandi kortanna greiðir fyrir hringinn.  

Þegar búið er að koma á slíku kerfi eins og GSÍ kortinu, er mjög erfitt, ef ekki nánast vonlaust að snúa til baka. Af hverju? Það er vegna þess að þeir sem eiga að taka ákvörðunina um að fella kortin úr gildi, eru allir korthafar.  En í tilefni þess að nýja Ísland berst á móti sérhagsmunahópum, væri þá ekki lang sniðugast að prófa í 2 ár, fram að næsta Golfþingi að gefa ekki út nein GSÍ kort og meta svo stöðuna að þeim tíma liðnum.

Með golfkveðju,

Margeir Vilhjálmsson