Fréttir

Hæg byrjun hjá Íslendingunum á 2. stigi úrtökumótanna
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
fimmtudaginn 30. október 2025 kl. 16:44

Hæg byrjun hjá Íslendingunum á 2. stigi úrtökumótanna

Þrír íslenskir kylfingar taka þátt í 2. stigi af þremur í úrtökumótum fyrir DP mótaröðina, atvinnumennirnir Haraldur Franklín Magnús og Guðmundur Ágúst Kristjánsson og Dagbjartur Sigurbrandsson, Íslandsmeistari 2025 en hann er að reyna fyrir sér í fyrsta sinn á þessu sviði.

Þeir félagar hófu leik í dag en annað stigið fer fram á fjórum golfsvæðum á Spáni og eru þremenningarnir hver á sínum stað. Byrjunin í dag var þokkaleg en þarf að vera betri svo þeir eigi möguleika á að komast á lokastigið.

Tuttugu og fjórir kylfingar úr hverju móti komast á lokastigið sem fer fram í lok nóvember.

Haraldur Franklín leikur á Isla Canela Links vellinum í Huelva á Spáni. Eftir fyrsta hringinn er hann jafn í 36. sæti á tveimur höggum undir pari, tveimur höggum á eftir kylfingum í 24. sæti. Hann fékk þrjá fugla og einn skolla, lék mjög stöðugt golf eins og iðulega í sumar.

Staðan

Guðmundur Ágúst náði sér ekki á strik í fyrsta hringnum og endaði 18 holurnar á þremur yfir pari, fékk fimm skolla og tvo fugla. Hann er jafn í 61. sæti og þarf að eiga góðan hring á morgun til að komast í gegnum niðurskurðinn. Guðmundur leikur á Fontanals vellinum í Girona á Spáni.

Staðan

Íslandsmeistarinn Dagbjartur lék á einu höggi yfir pari á fyrsta hringnum en hann er meðal keppenda á Desert Springs golfvellinum í Almeríu á Spáni. Dagbjartur er jafn í 46. sæti eftir fyrsta daginn.

Staðan