Kylfukast

Kylfukast: Tiger Woods – illa farið með góðan dreng!
Þarna sést staðsetning Woods eftir að hann hafið látið boltann sinn falla.
Laugardagur 13. apríl 2013 kl. 19:58

Kylfukast: Tiger Woods – illa farið með góðan dreng!

- Margeir Vilhjálmsson varpar fram sinni skoðun á atvikinu umdeilda hjá Tiger Woods á Masters

Það hefur ekki farið framhjá neinum golfáhugamanni fjaðrafokið í kringum víti sem Tiger Woods tók á 15. braut á 2. hring Mastersmótsins í gær.  Sitt sýnist hverjum.  Hreinræktaðir reglubókarsinnar segja að frávísun sé eina lausnin og með þeim dómi sem kveðinn var, þ.e. að Tiger hafi fengið 2 vítishögg að leik loknum og enga frávísun, sé búið að viðurkenna að hann sé stærri en íþróttin og fái betri meðferð en aðrir hjá dómurum á Masters.  Nefndin beitti fyrir sig reglu 33-7, þar sem henni er heimilt að sleppa frávísun hafi leikmaðurinn ekki gert sér grein fyrir því að hann væri að brjóta reglurnar.  Meira að segja hinn góðkunni vinur minn Nick Faldo – ýjaði að því að Tiger ætti ekki að mæta til leiks.

Það er þó annað sjónarmið sem má taka í þessu máli.  Fjölmargir hafa verið fljótir að taka í gikkinn og viljað skjóta Tigerinn niður, en þessi frábæri fulltrúi golfíþróttarinnar er nú á ný orðinn efstur á heimslistanum eftir vægast sagt mikið mótlæti undanfarin ár.

Skoðun mín á þessu máli er sú að Tiger Woods sé ekki að sleppa vel, heldur sé verið að dæma hann ákaflega hart í þessu máli.  Honum er gefin tvö vítishögg sem færa má rök fyrir því að hann hefði alls ekki átt að fá, heldur hefði hann bara átt að fá að halda áfram leik á -3, eins og stóð á skorkortinu hans.  Ég hef dæmt hann saklausan í þessu máli og röksemdafærslan fylgir hér á eftir.

Þegar Tiger sló í tjörnina á 15. braut, átti hann þrjá valkosti:

  1. Að slá 5. höggið sitt í þar til gerðum fallreit.
  2. Taka beina línu þaðan sem boltinn skar vatnstorfæruna síðast í pinnann – og fara eins langt aftur og hann vildi  og slá þaðan.
  3. Endurtaka höggið eins nærri og unnt er þeim stað þaðan sem síðast var leikið.

Tiger valdi kost nr. 3.  Fljótlega eftir að hann hafði leikið var bent á að hann hefði kannski ekki verið eins nálægt þeim stað og unnt var, sem hann sló upphaflega frá.  Nefndin tók málið til skoðunar og komst að því að ekkert hafi verið athugavert.   Hinsvegar að loknu viðtali við Tiger, þar sem hann sagðist hafa farið u.þ.b. tveimur „yards“ aftar, tók nefndin málið til endurskoðunar og vítaði hann um tvö högg.

Í golfreglunum er ekki til nein nánari skilgreining á því sem heitir „Eins nærri og unnt er þeim stað þaðan sem síðast var leikið“.  Engin fjarlægð er tilgreind í reglunum.  Ekki ein kylfulengd, tvær kylfulengdir, þrjú skref, skorkortslengd eða hvað það nú á að vera.

Hinn almenni áhugamaður þarf oft að beita þessu úrræði úti á velli.  T.d. ertu staddur u.þ.b. 150 metra frá holu í Meistaramóti í þínum klúbbi. Því miður er ekki bein útsending á RÚV, en óvart ertu stressaður og skallar tuðruna beint yfir flötina og niðurstaðan er sú, eftir 5 mínútna leit að boltinn er týndur.  Þetta er ekki alveg eftir áætlun, en þú þarft að strunsa með fýlusvip aftur niður á brautina til að endurtaka höggið.  Við þér blasir eitt vandamál.  Þú átt að slá eins nærri og unnt er þeim stað þaðan sem síðast var leikið.  Þú veist jú þú áttir u.þ.b 150 metra í stöngina og veist svona cirka hvar þú varst á brautinni, en nákvæm staðarákvörðun verður ekki betri en sú sem þú ákveður með ritara þínum.  Endurtekna höggið þitt gæti því allt eins verið 5-8 metrum þaðan sem hinu upphaflega var leikið.

Mín skoðun er sú að í gegnum tíðina hafi fjölmargir atvinnukylfingar (meira að segja Nick Faldo samkvæmt þessu) endurtekið högg á röngum stað – án þess að hafa verið refsað sérstaklega fyrir það.

Tiger Woods er það góður í golfi að hann lét boltann falla aftur eins nærri þeim stað sem hann sló fyrra höggið og unnt var, þó með það til hliðsjónar að hann vildi ekki hitta pinnann aftur og lenda aftur í vatninu!!!!

Því verður ekki annað sagt en að dómurinn sem Tiger fékk í dag hafi verið einstaklega harður í ljósi sögunnar og með hliðsjón af reglunum.  Nefndin ætti að endurskoða dóminn og falla frá tveggja högga vítinu.

Með golfkveðju,
Margeir Vilhjálmsson