Kylfukast: Slórarar
Íslenskir golfklúbbar hafa á undanförnum árum tekið upp „klukkukerfi“ ef svo má kalla á völlum sínum. Búið er að koma fyrir klukkum á völdum teigum á vellinum. Kerfið virkar þannig að ef þú átt rástíma kl. 12:00, þá eiga klukkurnar alltaf að vera 12:00 þegar komið er á viðkomandi teig. Þá veistu að golfleikurinn er innan tímamarka. Ef klukkan er 11:55 þá ertu á undan áætlun en ef hún er 12:10 þá stefnir í óefni.
„Slór við leik“ eins og Þorsteinn Svörfuður Stefánsson þýddi snilldarlega enska frasann „slow play“ er stærsta vandamál golfíþróttarinnar á heimsvísu. 18 holu golfhringur sem með réttu á ekki að taka 4 leikmenn meira en 4 klukkustundir á það til að dragast allt of langt í áttina að 5 klukkustundum eða þegar verst lætur þaðan af meira.
Eins og þetta klukkukerfi er á margan hátt sniðugt þá er það um leið alger hörmung. Sú staðreynd að koma þurfi upp klukkum á þriðja hverjum teig á golfvöllum er viðurkenning á því að golfklúbbar eru að eiga við vandamál sem þeir kunna ekki eða hafa ekki kjark til að takast á við.
Allir þéttsetnustu vellir landsins hafa ráðið til starfa ræsa og eftirlitsmenn á velli sína. Þeirra verkefni er að halda leikhraða í samræmi við stefnu golfklúbbsins. Ef ráshópur heldur ekki uppi leikhraða þá á eftirlitsmaður láta rásthópinn taka upp bolta sína vísa þeim umsvifalaust á næsta teig. Haldi ráshópurinn ekki leikhraða eftir það skal vísa þeim umsvifalaust af vellinum. Það er nefnilega óásættanlegt að einn fjögurra manna ráshópur geti tafið 18 holu leik hjá öllum öðrum sem á eftir koma.
Vísi eftirlitsmaður leikmönnum af velli munu verða læti. En núverandi ástand gengur ekki upp. Slórarar eru að eyðileggja golfíþróttina. Minnihlutinn ræður. Minnir svolítið á Alþingi Íslendinga en ekki er ástandið þar eitthvað sem við flokkum undir að vera til fyrirmyndar.
Sá sem einu sinni er rekinn af vellinum, lætur það ekki gerast aftur. Verði kylfingur ítrekað fyrir því að vera rekinn af vellinum mun viðkomandi líkast til hætta golfiðkun. Þeir sem ekki kunna á klukku hafa ekkert að gera gera á golfvelli. Farið hefur fé betra.
Með golfkveðju,
Margeir Vilhjálmsson