Kylfukast

Kylfukast: Markaðsstjórarnir
Mánudagur 1. júní 2015 kl. 09:51

Kylfukast: Markaðsstjórarnir

GSÍ og flestir stærstu golfklúbbar landsins hafa á undanförnum árum bætt í starfslið sitt markaðs-, viðburða- eða kynningarstjóra.
 
Þrátt fyrir þessa staðreynd fer kylfingum á Íslandi fækkandi. PGA á Íslandi í samstarfi við GSÍ tók uppá því fyrir nokkru síðan að halda „stelpugolfdag“ á hverju ári. Hugmyndin var sú að auka þátttöku stelpna í golfi. Frábær hugmynd og vel að verki staðið. Þrátt fyrir að hugmyndin sé frábær þá lýsir hún um leið ákveðinni skammsýni. Af hverju er ekki haldinn „strákagolfdagur“? Er það mat PGA og GSÍ að golfhreyfingin sé að drukkna í nýliðun í golfi hjá ungum drengjum þannig að það sé alger óþarfi að gera átak til að fjölga drengjum í golfi?  Skiptir hlutfallið milli drengja og stúlkna meira máli en fjöldinn?
 
Þetta árið var „stelpugolfdagurinn“ haldinn hjá GKG. Það mun örugglega verða stúlkum á Borgarnesi, Keflavík og Ísafirði mikil hvatning til að hefja golfiðkun að „stelpugolfdagurinn“ sé haldinn í Garðabæ.
 
Þessi markaðssókn fékk góða kynningu á baksíðu Morgunblaðsins sem náði að birta 15 ára gamla mynd af Önnu Lísu Jóhannsdóttur sem um síðustu aldamót var einn af okkar efnilegustu kvenkylfingum. Myndbirtingin sagði kannski meira en 1000 orð um stöðu golfíþróttarinnar meðal stúlkna. Á sama tíma og téð Anna Lísa var uppá sitt besta átti Golfklúbburinn Kjölur í Mosfellsbæ (nú Golfklúbbur Mosfellsbæjar) mjög efnilegt stúlknalið í golfi. Það hafði myndast eftir að gert var átak í stúlknagolfi í bænum. Þær náðu góðum árangri í sveitakeppni kvenna og unnu Íslandsmeistaratitla einstaklinga. Eftir að þær góðu stúlkur Nína, Helga Rut, Katrín, Snæfríður og fleiri sem mynduðu hópinn hættu eða drógu úr keppnisgolfi hefur eftir því sem ég best veit vart sést kvenkylfingur sem eitthvað getur frá GKj. Því miður.
 
Átak verður aldrei meira en skammtímalausn. Finna þarf farveg þar sem endurnýjun og nýliðun í golfíþróttinni er regluleg og krakkar, bæði strákar og stelpur velji íþróttina sem sína aðalíþrótt til ástundunar.
 
Ef þetta er ekki eitthvað sem markaðs-, kynningar- og viðburðastjórar eiga að láta sig varða?  Eða snýst markaðurinn bara um fyrirtækin í landinu en ekki iðkendurna?
 
Með golfkveðju,
Margeir Vilhjálmsson