Oxfordshire er skemmtilegur kostur
Oxfordshire golfvöllurinn í Englandi er einn af fjölmörgum skemmtilegum kostum sem stendur Íslendingum til boða í nágrenni London. Átján holu völlur var tekinn í notkun árið 1993 og 2010 var hótel opnað við hann. GB ferðir hafa boðið ferðir til Oxfordshire.
Oxfordshire býður upp á flest það sem kylfingar vilja. Góð umræða um völlinn fljótlega eftir opnun heillaði atvinnumannaheiminn og 1995 var Andersen Consulting heimsmótið haldið á honum og sama ár mót á Evrópumótaröð kvenna. Ári síðar mætti allt Ryderlið Evrópu í Benson og Hedges mótið sem haldið var á Oxfordshire næstu fjögur árin. Sigurvegarar voru kappar eins og Colin Montgomery, Bernhard Langer og Darren Clarke, allt stór nöfn úr heimi þeirra bestu frá þeim tíma til dagsins í dag.
Flottur völlur í enskri sveitasælu
Völlurinn er byggður á stóru landsvæði, um 100 hekturum í glæsilegri enskri sveitasælu í Oxfordshire, en um hálftíma akstur er til samnefndar sögufrægrar borgar. Hann er hannaður af hinum þekkta hönnuði Rees Jones sem m.a. endurhannaði stórvelli í Bandaríkjunum eins og Bethpage og Torrey Pines. Mikill fjölbreytileiki einkennir 18 holurnar sem skila parinu í 72 högg og á gulum teigum er hann 5600 metrar. Það er þokkalega vítt til veggja en glompur eru fyrirferðarmiklar en þær eru alls 135 talsins, margar mjög stórar, og setja þannig mikinn og fallegan svip á golfvöllinn. Fjórar mjög stórar vatnstofærur eru líka til að hrella kylfinga og þær koma við sögu á sex brautum. Því er ekki að leyna að þær brautir eru mjög skemmtilegar og fallegar. Vatnið fær menn oft til að skjálfa aðeins í hnjánum, sérstaklega á 4., 8., 13. og 17. braut. Fjórða og 13. hola eru par 3 brautir, flatirnar ekki mjög stórar og dugir því ekki nein ónákvæmni þar. Við þá þrettándu er stoppistöð þar sem mælt er með því að kylfingar taki 10 mín. pásu frá golfi og kaupi sér hressingu. Fyrir upphafshöggið á stuttri brautinni er þó mælt með sterkum kaffibolla en sumir freistast til að taka einn grænan í gleri til að herða sig fyrir höggið.
Áttunda og sautjánda voru að mati Íslendinga sem léku golf þarna á sama tíma og ritstjóri kylfings.is bestu holur vallarins. Áttunda er fallegasta braut vallarins þar sem margir möguleikar eru í boði þegar slegið er af teig, eyja með stórum trjáum fyrir framan flötina setur sterkan svip á brautina sem er í sveigju til hægri. Hér fara ótrúlega margir boltar í bleytuna. Glæsileg golfhola.
Áttunda brautin er rétt um 300 metrar en virkilega glæsileg og skemmtileg braut. Vatnstorfæra sem er skreytt með eyju er alla leið að flöt hægra megin.
17. brautin er ein skemmtilegasta braut í Bretlandi og þó víðar væri leitað. Hér að ofan má sjá flötina en að neðan „panorama“-mynd sem sýnir brautina beggja megin og vatnið á milli.
Glæsilegar vatnabrautir
Sautjánda er par 5 og spilast nokkuð löng fyrir meðalkylfinginn. Risastór vatnstorfæra blasir við framundan en það sem er mjög sérstakt er að það er brautarsvæði beggja megin, til hægri og til vinstri. Fyrir högglengri sem þora að slá boltann nógu nálægt vatninu er möguleiki á að slá yfir í tveimur höggum en fjarlægðin er yfirleitt um 200 metrar eða meira og því er það frekar sjaldgæft, nema hjá forgjafarlægri kylfingum. Flötin er síðan vel varin að auki með glompum og er grunn í þokkabót. Alger snilldarbraut og það sem hún gerir er að hún býður upp í dans en krefur kylfinginn um að velja á milli kosta. Vill hann taka áhættu eða leika af meira öryggi sem er í raun ekki mikið því vatnið hrellir alveg upp að flöt.
Hér hefur aðeins verið skrifað um flestar vatnaholurnar en það eru margar fleiri góðar brautir á vellinum. Þrjár þeirra, 3., 12. og 16., eru allar mjög erfiðar par 4 brautir. Margir „meðalkylfingar“ ná ekki inn á flöt í tveimur höggum á öllum þessum holum en auðvitað er það mismunandi eftir vindi. Svo eru styttri holur sem gefa möguleika og þar má sérstaklega nefna 7. braut sem er stutt par 5 og 14. sem er góð par 4. Tíunda er mjög flott par 4 og 11. holan er par 5 og þar er vatn alla leið hægra megin inn að flöt. Báðar mjög flottar.
Upphafsholan og lokabrautin eru báðar mjög skemmtilegar par 4 brautir og svona mætti halda áfram. Ótrúleg fjölbreytni á skemmtilegum golfvelli, einum þeim skemmtilegasta sem undirritaður hefur leikið.
4. brautin er par 3 en vatn alla leið og flötin ekki stór. Vegleg glompa við 18. flöt á neðri mynd.
Góðar aðstæður á hótelinu
Oxfordshire er mjög gott 4 stjörnu golfhótel með 50 herbergjum. Herbergin eru vegleg með helstu þægindum, veglegu sjónvarpi og þá eru nettar svalir á þeim öllum. Netaðgangur er alls staðar á svæðinu og er ókeypis. Á hótelinu eru tveir veitingastaðir, bar, lounge með fríu interneti, heilsulind og sundlaug. Klúbbhúsið er hluti af hótelinu, þar er enn einn veitingastaður og bar, stórt búningsherbergi með sturtuaðstöðu. Fyrsti teigur á golfvellinum er nokkur skref frá hótelinu ásamt æfingasvæðinu og púttflötum.
Þá er ágæt golfverslun í húsinu. Þar er golfvarningur til sölu, leiga á 2 hjóla kerrum, rafmagnskerrum og golfbílum.
Ef kylfingar vilja kíkja í næsta bæ er stutt í Thame sem er smábæjarkjarni um 5 mín. frá hótelinu, 30 mín. eru í Oxford en þar er mikið líf og fjör og fjöldi veitingastaða.
Unnar Már Magnússon kylfingur í GS reynir við flötina á 17. braut. Leiðin nokkuð löng og ströng!
Flatirnar á Oxfordshire eru góðar, hér púttar Gísli Eiríksson úr GS á 18. flöt.
Jón Ólafur Jónsson, GS, slær upphafshögg á 11. braut sem er par 5, með vatn til hægri alla leið.
GS félagar fyrir framan klúbbhúsið og hótelið við Oxfordshire. Séð inn í eitt herbergið á hótelinu.
Íslenskir kylfingar hafa verið duglegir að heimsækja Oxfordshire sem GB ferðir hafa í sölu.