Fréttir

Svarfhólsvöllur á Selfossi kominn í 14 holur
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
þriðjudaginn 27. ágúst 2024 kl. 16:17

Svarfhólsvöllur á Selfossi kominn í 14 holur

Veðurguðirnir skörtuðu ekki beint sínu skærasta á laugardaginn þegar Opna Ping-mótið var haldið á Selfossi, og í leiðinni voru fimm nýjar holur vígðar. Kári tók full mikinn þátt í mótinu en það breytti meðlimi GOS og gesti þeirra litlu máli, allir brostu sínu breiðasta að hring loknum og eru allir himinlifandi með þessar nýjar holur. Síðustu fjórar holurnar verða klárar árið 2027 og draumur GOS-ara er að halda Íslandsmótið á 60 ára afmæli klúbbsins árið 2031.

Það var kannski við hæfi að framkvæmdastjóri GOS, Hlynur Geir Hjartarson, yrði sá sem myndi setja fyrsta vallarmetið á nýjum velli.

„Aðstæður voru ekki góðar, það verður að segjast eins og er og eigum við ekki bara að segja að ég hafi verið heppinn hvernig boltinn fauk hjá mér en allir okkar bestu kylfingar tóku þátt í mótinu. Ég er nokkuð viss um að þessi methringur minn, +3 muni ekki standa lengi. Aðalatriðið er bara að við áttum góðan dag saman og eru allir meðlimir í skýjunum með þessar nýju holur. Ef ég tek Selfyssinginn og GOS-arann úr mér og reyni að vera hlutlaus, vil ég sem kylfingur meina að þessar nýju holur séu virkilega vel heppnaðar. Þær er fjölbreyttar, margar leiknar við Ölfusána og landslagið er bara virkilega fallegt, við erum mjög ánægðir með stækkunina.“

Tíu ára brúðkaupsafmæli

Það eru u.þ.b. tíu ár síðan Vegagerðin hafði samband við Golfklúbb Selfoss og tilkynnti fyrirhugaða smíði á nýrri brú, sem myndi að hluta til liggja yfir Svarfhólfsvelli. Á þeim tímapunkti hófst gott samband og samstarf Hlyns og Edwins Roalds, golfvallarhönnuðar.

„Við Edwin grínuðumst með það í hófi á föstudaginn að við ættum tíu ára brúðkaupsafmæli þessa dagana. Þegar Vegagerðin tilkynnti okkur þetta árið 2014 tók okkur ekki langan tíma að snúa stöðunni einfaldlega okkur í vil og ákváðum að fara í stækkun vallarins. Sveitarfélagið Árborg hefur stutt okkur mjög vel í verkefninu og svo æxluðust mál okkur í vil þegar framkvæmdir í nýja miðbænum á Selfossi hófust árið 2019, allt efnið sem var mokað upp þar var flutt til okkar og þar með gátum við búið til miklu meira landslag í vellinum. Við munum sá í síðustu fjórar brautirnar á næsta ári og gerum við ráð fyrir að Svarfhólsvöllur verði orðinn 18 holur árið 2027,“ segir Hlynur.

Íslandsmótið 2031?

Golfklúbbur Selfoss var stofnaður árið 1971 og mun því fagna 60 ára stórafmæli árið 2031, draumur GOS-ara er að halda Íslandsmótið þá.

„Það yrði gaman að fá að halda Íslandsmótið á þessum merku tímamótum í sögu klúbbsins. Við stefnum á að völlurin opni sem 18 holu völlur árið 2027 en þó svo að búið sé að opna þá er alltaf hellings frágangur, gera snyrtilegt í kringum teiga, gera stíga o.s.frv. svo vonandi er raunhæft hjá okkur að stefna á þetta. Það er gott hljóð í okkur Selfyssingum,“ sagði Hlynur að lokum.

3. holan, Ketilbrot. Stutt par 4 hola sem býður kylfingum upp í dans. Þeir högglöngu geta freistað þess að komast inn á flöt í upphafshögginu, sérstaklega ef vindátt er hagstæð.

2. hola, Mómýri. Ingólfsfjall tignarlegt í baksýn.

13. hola, Móholt.

12. holan, par-3-hola meðfram Rauðalækjarós, þar sem samnefndur lækur rennur í Ölfusá.
Hugsanlega var skrifað í skýin að Hlynur Geir, framkvæmdastjóri GOS, myndi eignast fyrsta methringinn, 57 högg eða +3