Fréttir

Morikawa sigraði í Dubai og tryggði sér stigameistaratitilinn
Frábært tímabil að baki hjá Collin Morikawa.
Nökkvi Gunnarsson
Nökkvi Gunnarsson skrifar
sunnudaginn 21. nóvember 2021 kl. 20:55

Morikawa sigraði í Dubai og tryggði sér stigameistaratitilinn

Collin Morikawa lék frábært golf á lokahring DP World Tour Championship og tryggði sér nokkuð öruggan sigur þegar upp var staðið. Morikawa endaði mótið á samtals 17 höggum undir pari eftir 66 högg á lokahringnum.

Morikawa sem einnig tryggði sér sigurinn á stigalistanum og eina milljón dollara í bónus endaði þremur höggum á undan Alexander Bjork og Matt Fitzpatrick.

Rory McIlroy var í ágætum málum og jafn Morikawa þar til á 15. braut þegar hann lenti í því að slá í stöngina og þaðan ofaní glompu. Líklegur fugl varð þannig að skolla og leikur McIlroy gjörsamlega hrundi í kjölfarið. Að lokum endaði McIlroy í 6. sæti fimm höggum á eftir Morikawa.

Morikawa var hrærður eftir sigurinn og minntist afa síns sem féll frá fyrr á þessu ári. Frábært tímabil að baki hjá þessum 24 ára kylfingi.