Magnaður fugl hjá Rory á 18. holunni - er í 2. sæti eftir fyrsta dag á Players
Norður Írinn Rory McIlroy átti eitt af höggum dagsins á fyrsta keppnisdegi Players mótinu á Sawgrass vellinum í Jacksonville í Flórída í gær. Rory fékk fjóra fugla í röð frá 9.-12. holu en fuglinn á lokabrautinni var magnaður. Hann er á fimm höggum undir pari og höggi frá þremur forystusauðum á 6 undir pari.
Rory átti slakt upphafshögg með brautartré á 18. holunni. Boltinn fór undir tré hægra meginn um 130 metra frá flöt. Þaðan sló hann eitt af höggum dagsins, létt „pöns“ eða vipp sem flaug lágt inn á braut og rúllaði þaðan inn á flöt um 3 metra frá. Púttið rataði svo beint í holu og sjöundiur fugl dagsins staðreynd. Hann fékk tvo skolla á hringnum.
Það verður spennandi að fylgjast með framvindunni í þessu eina stærsta móti ársins í heimi atvinnumanna, margir segja þetta vera fimmta risamótið en allir bestu kylfingarnir á PGA og DP mótaröðinni eru meðal þátttakenda.
Bandaríkjamennirnir Lucas Glover og J.J. Spaun ásamt Kólombíumanninum Camilo Villegas eru efstir á 6 undir pari.
Hér er Rory í 18. brautinni þar sem hann fékk frábæran fugl eftir lélegt upphafshögg.
Hér má sjá fugl hjá Glover á 18. holunni.
Villegas fékk líka fugl á 17. holunni.