Fréttir

Læsist inni á klósetti í miðjum hring í úrtökumóti
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 29. desember 2023 kl. 15:13

Læsist inni á klósetti í miðjum hring í úrtökumóti

„Þetta var yfir höfuð lélegt ár hjá mér og ég vil bara sturta því niður í klósettið,“ segir Guðrún Brá Björgvinsdóttir, atvinnukylfingur sem átti erfitt ár.

Guðrún Brá Björgvinsdóttir, atvinnukylfingur úr Hafnarfirði átti ekki sitt besta ár í golfinu og botninum á því var í raun náð í úrtökumóti undir lok tímabilsins en þá þurfti hún að fara á klósettið í miðjum hring og læstist inni og mátti dúsa þar í dágóðan tíma. Hún hefur unnið mikið í sínum leik að undanförnu, bæði í andlega þættinum og í sjálfu golfinu og er tilbúin í næsta ár.

Guðrún þurfti ekki að hugsa sig lengi um þegar hún var spurð hvað hafi verið eftirminnilegast á árinu sem er að líða. „Ég lenti í atviki á öðrum hring í Q-school [úrtökumót fyrir Evrópumótaröðina] í desember. Ég þurfti að fara á klósettið og læstist þar inni! Ég hef lent í ýmsu á golfvellinum en aldrei í öðru eins og því miður gat ég ekki valið verra mót til að lenda í þessu. Þegar ég hugsa til baka fæ ég hálfgerða ónotatilfinningu og þó svo að ég geti hlegið að þessu núna, var þetta ekkert grín þegar þetta kom upp á. Hollið mitt þurfti að hleypa hollinu á eftir á undan og ég var komin með dómarana fyrir utan klósettið. Ég fór einfaldlega í panik, gat ekki gert neitt en svo náði ég að aflæsa hurðinni með tveimur tíum sem ég var á mér. Þegar ég komst loksins út fór ég í spennufall, ég gat varla haldið á kylfunni. Þetta var vægast sagt óþægilegt. Ég náði mér vel á strik daginn eftir, spilaði þá á sex undir en þetta atvik kláraði möguleikann minn í þessu móti. Kannski má segja að þetta hafi verið til að fullkomna árið hjá mér á neikvæðan máta, ég náði mér aldrei almennilega á strik svo ég var fegin þegar tímabilinu lauk, að sturta því bara ofan í klósettið og sem betur fer að læsast ekki inni á klósettinu.“

Guðrún fór fljótt að vinna í sínum málum með þjálfarateyminu sínu og horfir bjartsýn til framtíðar. „Það er nú ekki gott að rifja upp eitthvað eitt gott högg frá árinu, ekki nema maður hafi farið holu í höggi eða sett ofan í af löngu færi. Ég get ekki tekið út úr þetta upphafshögg eða högg inn á flöt, höggin voru það mörg og renna saman. Varðandi næsta ár tel ég mig tilbúna í slaginn. Síðasta ár var erfitt, mér gekk illa að komast inn á mót og þegar illa gengur verður þetta oft eins og snjóbolti sem hleður utan á sig. Ég var aldrei í baráttu í Íslandsmótinu og var bara yfir höfuð langt frá mínu besta. Þess vegna var gott að geta bara gleymt fortíðinni og byggja mig upp aftur með þjálfarateyminu mínu. Sagt er að það sem ekki drepi, styrki og ég lærði helling inn á sjálfa mig í þessu mótlæti. Golfið er nú þannig að það er endalaust hægt að bæta sig, sama hvað maður heitir getur maður alltaf bætt sig. Ég hlakka mikið til næsta tímabils og markmiðið er að komast inn á Evróputúrinn og spila af öryggi þar. Annað markmið er að vinna atvinnumannamót, þegar ég spila mitt besta golf get ég alveg staðið í þeim bestu og ég get ekki beðið eftir að byrja aftur,“ sagði Guðrún Brá að lokum.

Guðrún Brá ásamt þjálfara sínum, Nökkva Gunnarssyni á úrtökumóti í lok á árs.