Golfklúbbur Kiðjabergs
Golfklúbbur Kiðjabergs

Fréttir

Húsatóftavöllur í Grindavík loksins opnaður
Frá vinstir; Haukur Einarsson, formaður knattspyrnudeildar UMFG, Helgi Dan og Jón Gauti Dagbjartsson, umboðsmaður Olís í Grindavík og strandveiðiáhugamaður. Tekið skal skýrt fram að Helgi stóð á tám á meðan myndin var tekin.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
sunnudaginn 9. júní 2024 kl. 15:06

Húsatóftavöllur í Grindavík loksins opnaður

Hefur gert það gott í strandveiðinni á meðan Húsatóftavöllur hefur verið lokaður

Húsatóftavöllur í Grindavík var loksins opnaður í morgun, rétt rúmum þremur vikum eftir að búið var að ákveða að völlurinn myndi opna laugardaginn 18. maí. Yfirvöld tilkynntu degi fyrr að ekki væri óhætt að opna völlinn þá og eftir japl, jaml og fuður geta Grindvíkingar og gestir loksins leikið golf í Grindavík.

Helgi Dan Steinsson er framkvæmdastjóri Golfklúbbs Grindavíkur.

„Við erum auðvitað þakklát yfirvöldum að fá að opna völlinn í dag og þó svo að hann sé bara níu holur þá erum við ánægðir. Ekki var talið óhætt að opna tíundu holuna en ég á ekki von á öðru en við fáum að opna hana von bráðar og tökum þá líka holur ellefu, tólf og átján í notkun. Ég á ekki von á að við opnum bakkana í sumar en þó er það ekki útilokað. Aðalatriðið er bara að geta opnað völlinn, hann hefur líklega aldrei komið betur undan vetri og er í frábæru standi. Þetta er gleðidagur fyrir Grindavík, grindvíska golfara og að sjálfsögðu hinn almenna kylfing.“

Örninn sumar 2024
Örninn sumar 2024

Helgi hefur ekki setið auðum höndum þó svo að Húsatóftavöllur hafi ekki opnað, hann hefur bæði verið að koma vellinum í toppstand og líka nýtt tækifærið og látið til sín taka í strandveiðinni. Hann var einmitt að hnýta slóða þegar grænt ljós var gefið frá yfirvöldum að opna völlinn.

„Ég ákvað að hjálpa einum meðlima GG, Jóni Gauta Dagbjartssyni en hann á bátinn Grindjána ásamt bræðrum sínum og þurfti aðstoð. Ég ákvað að sýna Gauta hvernig við Skagamennirnir gerum þetta og hefur þetta gengið vel. Reyndar var bræla í síðustu viku og ég hafði látið mig hlakka til að róa með Gauta í vikunni en auðvitað gengur golfið fyrir, ég á ekki von á öðru en völlurinn verði sneysafullur á næstunni,“ sagði Helgi Dan að lokum.

Formaður Golfklúbbs Grindavíkur, Hávarður Gunnarsson, tekur fyrsta teighöggið.
Helgi einbeittur að fara slá inn á þriðju flötina. Í baksýn er liðsfélagi Helga í Texas-móti dagsins, þeir töpuðu fyrir sínum keppinautum.
Haukur Einarsson, formaður knattspyrnudeildar UMFG, og Helgi Dan Steinsson.