Fréttir

Hefði verið svo góð saga að vinna mótið kasólétt
Nína Björk (og litli Siggi Pé í maganum) á 16. teignum á Íslandsmótinu í Eyjum 2008.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
fimmtudaginn 28. júlí 2022 kl. 11:40

Hefði verið svo góð saga að vinna mótið kasólétt

„Ég man að ég var svekkt að ég skyldi ekki ná að klára þetta. Helena jafnaði mig með fugli á 72. holu með fugli og síðan hafði hún betur í bráðana eftir 3 holu umspil. Ég man líka að veðrið var hundleiðinlegt, sérstaklega þennan lokadag,“ segir Nína Björk Geirsdóttir en hún varð í 2. sæti á Íslandsmótinu sem fram fór í Eyjum 2008 komin sex mánuði á leið með sitt fyrsta barn. Það er því óhætt að segja að hún hafi verið með tvær kúlur á lofti allt þetta ár.

Nína varð Íslandsmeistari árið á undan á Hvaleyrinni og lék allt sumarið 2008 þrátt fyrir að vera ólétt. Í viðtali við Golf á Íslandi fyrir Íslandsmótið í höggleik í Eyjum sagði hún að eftir að kúlan stækkaði fyndi hún meira fyrir henni. „Ég þarf að beita mér aðeins öðruvísi í sveiflunni og hugsa betur um bakið. Svo spila ég eiginlega ekki nema að vera með kaddý og mamma er að koma sterk inn þar,“ segir Nína þegar hún rifjar upp þetta eftirminnilega ár upp en hún spilaði allt sumarið og í sveitakeppninni líka, tveimur vikum eftir Íslandsmót. Þar hampaði hún titlinum með vinkonum sínum í Kili.

„Mér fannst þetta ekkert mikið mál en var þó auðvitað þreyttari eftir hringina en áður. Þetta hefði verið svo flott saga að vinna titilinn ólétt,“ segir Nína. Lítill drengur kom í heiminn um haustið og fékk nafnið Sigurður Helgi Pétursson í höfuðið á afa sínum heitnum sem var einn af bestu kylfingum landsins. Nína er eiginkona Péturs Óskars Sigurðssonar fyrrverandi afrekskylfings en hann hefur starfað í golfgeiranum í mörg ár.

Nína segist hafa spilað golf árið eftir fæðinguna en hún var í mörg ár ein af bestu golfkonum okkar. Svo eignaðist hún annað barn 2012 og eftir það minnnkaði ástundunin aðeins. Hún hefur samt alltaf leikið eitthvað keppnisgolf og verið klúbbmeistari átján sinnum í Mosfellsbæ. Þá hefur hún oftast keppt á Íslandsmóti og varð m.a. í 3. sæti 2019. 

Þegar Nína var á fullu í keppnisgolfinu stundaði hún líka nám í lögfræði. Það gekk vel hjá henni og Nína hefur starfað sem lögfræðingur á annan áratug hjá umboðsmanni skuldara. En verður hún í baráttunni í Eyjum í ár?

„Nei, ég verð fjarri góðum gamni, er með fjölskyldunni í fríi hjá Hönnu systur Péturs Óskars í Svíþjóð,“ sagði Nína Björk.

Nína á 11. brautinni sem var 23. hola hennar á lokadeginum í bráðabananum við Helenu með myndatökumanninn rétt fyrir aftan sig, allt í beinni á Stöð 2 sport. 

Nína og Helena takast í hendur eftir baráttuna.